12.9.2015 16:00

Laugardagur 12. 09. 15

Jeremy Corbyn hlaut glæsilega kosningu sem leiðtogi Verkamannaflokksins í Bretlandi, tæp 60% atkvæða. Í blaðinu The Daily Telegraph birtist þessi listi yfir áherslur hans:

Nýr fjárfestingarbanki í ríkiseign til að ýta undir hagvöxt og minnka halla.

Ríkið eigi járnbrautir og orkufyrirtæki.

Hætta við Trident-kjarnorkukafbátana og útvega störf sem viðhalda hæfni skipasmiða.

Minnka kostnað vegna félagsmála með hagvexti og fjárfestingu.

Áætlun um meira húsnæði og eftirlit með leiguverði.

Félagsleg umhyggja felld inn í ríkisrekna heilbrigðiskefið.

Ný menntamálastofnun sem veitir börnum alhliða þjónustu, afnám skólagjalda, endurupptaka styrkja og fjármögnun fullorðins-starfsþjálfunar.

Afnám ótryggðra starfssamninga og lífvænleg lágmarkslaun fyrir alla án tillits til aldurs.

Sé tekið mið af íslenskum stjórnmálum er ljóst að Verkamannaflokkurinn breski hefur valið leiðtoga sem er einskonar samnefnari milli vinstri arms Samfylkingarinnar og Vinstri grænna. Hvers vegna taka þessi öfl ekki höndum saman hér á landi undir formennsku Ögmundar Jónassonar? Hægri armur Samfylkingarinnar gæti hæglega sameinast Bjartri framtíð.

Í slíkri uppstokkun fælist hæfileg hreingerning á vinstri kantinum.

Brýnasta verkefni Sjálfstæðisflokksins er að skilgreina stöðu sína í Reykjavík og takast á við veikleika sem við blasa að lokinni slíkri greiningu. Á meðan flokkurinn nýtur þessa litla trausts meðal borgarbúa og ungs fólks nær hann sér ekki á strik.

Það er merkilegt að á vettvangi Sjálfstæðisflokksins virðist engin umræða um hve brýnt er að gjörbylta starfsháttunum í Reykjavík. Ólíklegt er að hún verði í aðdraganda landsfundarins nema dragi til tíðinda vegna átaka um menn.  Innra starf flokksins í Reykjavík snýst um menn en málefnin sitja á hakanum.

Að enginn í forystusveit sjálfstæðismanna í Reykjavík gangi fram fyrir skjöldu og boði skipulagt átak til að endurreisa flokkinn í höfuðborginni er mikið áhyggjuefni. Þetta leiddi til þess að maður utan Reykjavíkur var kallaður til að leiða lista flokksins í borgarstjórnarkosningum án þess að hafa árangur sem erfiði.