28.9.2015 18:45

Mánudagur 28. 09. 15

Sendiherra Rússlands í Póllandi, Sergeij Andreev, hefur sakað Pólverja um að bera sjálfir hluta ábyrgðar á upphafi síðari heimsstyrjaldarinnar. Þessi sérkennilega söguskoðun er liður í áróðri Pútín-stjórnarinnar í Rússlandi til að ófrægja Pólverja vegna ögrana stjórnarinnar í garð allra ríkja við austur landamæri Rússlands, frá Finnlandi til Úkraínu.

Skömmu fyrir innrás Hitlers í Pólland hinn 1. september 1939 gerði hann griðasáttmála við Stalín og 16 dögum eftir innrás Hitlers réðst Stalín inn í austurhluta Póllands, lét handtaka óteljandi fjölda Pólverja og flytja þá í fangabúðir í Rússlandi. Harðstjórunum lenti ekki saman fyrr en í júní 1941 þegar Hitler réðst inn í Rússland en vorið 1940 myrti NKVD, rússneska leynilögreglan, þúsundir pólskra herforingja í Katyn-skógi. Rúm 50 ár liðu þar til viðurkennt var í Moskvu að Rússar hefðu unnið ódæðið en fram til þess tíma héldu kommúnistar því jafnan fram að nazistar hefðu verið Katyn-böðlarnir.

Eftir að fréttin um ummæli rússneska sendiherrans birtist sagði Ómar Ragnarsson á vefsíðu sinni (omarragnarsson.blog.is) að í þeim fælist „sannleikskorn að einu leyti“ (!). Hann segir að Vesturveldin hafi stundað friðþægingarstefnu gagnvart Hitler, þau hafi samið við hann í München án samráðs við Stalín. Pólverjar hafi óttast Rússa og því ekki leyft þeim að senda herlið um Pólland til varnar gegn nazistum. Ómar segir: „Niðurstaða Stalíns var rökrétt: Illskásti kosturinn væri að friðþægja Hitler og tryggja þannig hernaðaraðstöðu Sovétríkjanna í Austur-Evrópu.“

Þetta er of langsótt afsökun Ómars á orðum rússneska sendiherrans til að hún sé marktæk.

Annar bloggari Vésteinn Valgarðsson (vest1.blog.is) segir herforingjastjórn í Póllandi hafa óttast Sovétmenn meira en nazista.  Það hafi kannski verið skiljanlegt vegna tiltölulega nýlegrar styrjaldar. Það hafi „engir englar“ þá ráðið Póllandi. Hann klykkir út með þessari setningu: „Því er við að bæta að ég held að nasistar hafi framið Katyn-fjöldamorðin.“

Vésteinn hefur með öðrum orðum viðurkenningu Moskvumanna á sekt sovéska hersins vegna blóðbaðsins í Katyn að engu.

Það er verðugt rannsóknarefni hve fúslega einstaklingar hér á landi ganga fram á völlinn og taka til varna fyrir vondan málstað Rússa. Í Morgunblaðinu birtast öðru hverju greinar þar sem menn spinna þráðinn um Úkraínu samtímans á þann veg að engu er líkara en þeim þyki sjálfsagt og eðlilegt að stjórnvöld í Kænugarði lúti Moskvuvaldinu.