Fimmtudagur 24. 09. 15
Viðtal mitt á ÍNN við Kristínu Eysteinsdóttur, leikhússtjóra Borgarleikhússins, frá 23. september er komið á netið og má sjá það hér.
Flugið frá Bergen um Þrándheim í dag gekk samkvæmt áætlun, meira að segja lenti Icelandair-vélin á undan áætlun.
Enn er óvíst hvort tekst að ná stjórn á straumi farand- og flóttamanna til Evrópu frá Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku. Leiðtogaráð ESB-landanna 28 kom saman miðvikudaginn 23. september og þar var ákveðið að verja einum milljarði evra til stuðnings aðgerðum Flóttamannastofnunar SÞ (UNHCR) og annarra stofnana SÞ sem hafa neyðst til að draga saman seglin við störf sín vegna skorts á fjármunum. Þá verður þessum fjármunum einnig varið til stuðnings við Líbanon, Jórdaníu og Tyrkland þar sem alls eru um fjórar milljónir flóttamanna. Rætt verður við Tyrki um leiðir til að stöðva straum fólks frá Tyrklandi til Grikklands. Starf Frontex, Landamærastofnunar Evrópu, við gæslu ytri landamæra ESB verður aukið. Komið verður á fót nýjum skráningarskrifstofum „hotspots“ á ESB-máli til að skrá allt aðkomufólk sem reynir að komast inn á Schengen-svæðið.
Allt miðar þetta að því að halda sem flestum frá Evrópu og halda nákvæma skrá yfir þá sem reyna að komast þangað. Donald Tusk, forseti leiðtogaráðsins, sagði réttilega að ekki væri víst að þetta leysti vandann en um væri að ræða nauðsynlegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að Schengen-samstarfið yrði að engu – það yrði aðeins til í orði en ekki á borði. Hann taldi að stærsta flóttamannabylgjan hefði ekki skollið á Evrópu.