13.9.2015 18:30

Sunnudagur 13. 09. 15

Greiningardeild ríkislögreglustjóra hefur sent frá sér skýrslu sem hefur að geyma mat á skipulagðri brotastarfsemi. Í lok hennar segir:

 „Greiningadeild telur að huga beri að stofnun rannsóknarteymis sem starfi á landsvísu og aðstoði lögregluumdæmin við rannsókn og úrvinnslu flókinna mála, t.d. tölvurannsóknir og fíkniefnamál sem krefjast mikillar sérfræðikunnáttu.

Nú er starfrækt í landinu ein vopnuð lögreglusveit; sérsveit ríkislögreglustjóra. Hún er sérstaklega þjálfuð til þess að takast á við hættuleg tilvik svo sem vopnamál, gíslatökur, hættulega einstaklinga og hópa. Styrkur hennar hefur veruleg áhrif á starfsemi lögreglunnar á landsvísu. Sérsveitin hefur ekki náð þeim styrk sem stefnt var að í upphafi. Efling sérsveitarinnar gæti ekki síst gagnast landsbyggðinni í baráttunni gegn skipulagðri brotastarfsemi.“

Þá kemur fram að í framhaldi af útgáfu ríkislögreglustjóra í janúar 2015 á verklagsreglum vegna heimilisofbeldis hafi tilkynningum, ákærum og dómum fjölgað og nú hafi hátt á fimmta tug slíkra mála komið á borð lögreglu frá áramótum. Á fundum greiningardeildar með lögregluumdæmunum kom fram að þessar rannsóknir væru bæði flóknar og tímafrekar og takmörkuðu þannig um leið getu lögreglunnar til þess að sinna annarri frumkvæðisvinnu.

Við þennan lestur vaknar spurning um hvort ekki eigi að koma á fót landsteymi til að sinna kærum vegna heimilisofbeldis.

Í skýrslu greiningardeildarinnar er ekki vakið máls á höfuðvanda þeirra sem vilja að framkvæmd löggæslu sé markviss. Hann felst í brotthvarfi dómsmálaráðuneytisins og meiri fjarlægð en áður milli pólitískrar yfirstjórnar og þeirra sem sinna ábyrgðarmiklum störfum á vettvangi lögreglunnar. Að löggæsla og barátta gegn afbrotum séu aukageta innan innanríkisráðuneytis er fráleit aðferð til að hlú að slíkri starfsemi.

Af ummælum forráðamanna ríkisstjórnarinnar hefur mátt ætla að þeir vilji endurreisa dómsmálaráðuneytið. Þess sjást þó engin merki að unnið sé að því.

Þar sem ekki tekst lengur að verja ytri landamæra Schengen-svæðisins er samstarfið undir merkjum þess í molum. Þetta krefst aukins eftirlits á landamærum hér eins og annars staðar.

Miklar umræður fara fram um framtíð Schengen-samstarfsins. Tómlæti gagnvart þróuninni er varasöm en um árabil hefur enginn sérstakur fulltrúi íslenskrar löggæslu starfað í sendiráði Íslands í Brussel. Sérþekking á Schengen-málefnum skiptir sköpum við gæslu íslenskra hagsmuna á þessu mikilvæga sviði.