Föstudagur 18. 09. 15
Þriðjudaginn 15. september 2015 var hátíð í borgarstjórn Reykjavíkur vegna brottfarar Bjarkar Vilhelmsdóttur (Samfylkingu) úr henni. Björk átti sér þann draum að viðskiptabann yrði sett á Ísrael og flutti um það tillögu til að vinna sig í álit hjá nýjum vinnuveitendum sínum, Palestínumönnum. Meirihlutinn samþykkti tillöguna en sjálfstæðismenn í minnihluta hörmuðu að geta ekki orðið við ósk Bjarkar og báru einkum fyrir sig tæknileg rök – pólitík má ekki lengur ræða í borgarstjórn Reykjavíkur. Það er gamaldags.
Eftir þessari samþykkt borgarstjórnar var tekið í Ísrael og víðar, viðbrögðin láta ekki heldur á sér standa. Álag á íslensku utanríkisþjónustuna hefur stóraukist vegna aragrúa mótmælabréfa þar sem hvatt er til þess að íslenskar vörur séu sniðgengnar og fjöldi fólks segist ekki munu sækja Ísland heim og hvetur aðra til hins sama.
Á mbl.is er í dag rætt við Dag B. Eggertsson borgarstjóra um hina forkastanlegu samþykkt. Augljóst er af orðum hans að ekki minnsta vinna var lögð í áhættumat vegna tillögunnar eða samþykktar hennar. Borgarstjóri segir meðal annars afgreiðslunni til réttlætingar:
„Þetta tengist auðvitað líka því að þetta er lokatillaga Bjarkar sem er að hætta í borgarstjórn þannig að við gerðum þetta svona.“
Þannig að allajafna hefði tillagan ekki verið sett fram í svona miklum flýti, spyr blaðamaður og svarið er:
„Ég get kannski ekki sagt að þetta hafi verið sett fram í flýti, þetta hefur mjög víða [annars staðar] verið til umræðu og skoðunar. […] Við þurfum auðvitað að vanda okkur í þessu eins og öðru.“
Samþykktin er ekki eins og hvert annað ráðhúshneyksli heldur alþjóðlegt feilspor sem sannar enn vanhæfni borgarstjóra og liðsmanna hans.
Utanríksráðuneytið sendi í dag frá sér yfirlýsingu þar sem áréttað er að ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur sé ekki í samræmi við utanríkisstefnu Íslands og ekki heldur til marks um tengsl Íslands og Ísraels.
Hvort þetta nægi til að slökkva reiðibálið sem samþykkt kveðjutillögu Bjarkar vakti kemur í ljós. Forseti Íslands og forsætisráðherra ættu einnig að leggja sitt af mörkum til að rétta hlut þjóðarinnar vegna þessa asnasparks borgarstjórnar í gyðinga.