Fimmtudagur 10. 09. 15
Í morgun birti ég á vefsíðunni vardberg.is endursögn á frétt á vefsíðunni defensenews.com um komu Roberts Works, vara-varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hingað til lands og fund með Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra þriðjudaginn 7. september. Fréttastofa ríkisútvarpsins vitnaði í þessa endursögn mína í fréttum klukkan 18.00 eins og sjá má hér.
Fréttastofa ríkisútvarpsins sneri sér til utanríkisráðuneytisins af þessu tilefni sem lýsir hlutverki utanríkisráðherra sem hlustanda í þessum samtölum. Þeir Gunnar Bragi og Robert Work hittust í Washington hinn 1. júlí 2015 og eftir fund þeirra var utanríkisráðherra spurður á fundi hjá hugveitunni CSIS í Washington hvort hann teldi stöðu öryggismála skapa „þörf“ fyrir að endurreisa varnarlið á Íslandi undir stjórn Bandaríkjamanna eða NATO.
Utanríkisráðherra sagði erfitt að svara hvort þessa væri „þörf“. Það yrði hins vegar að bregðast við stöðunni í öryggismálum hverju sinni og nú væri öfugþróun vegna framgöngu Rússa og hættu frá hryðjuverkamönnum. Sig mundi ekki undra að Ísland yrði mikilvægara og hernaðarlegt mikilvægi landsins kæmi að nýju til umræðu. Hann væri hlynntur því ef NATO og allir samstarfsaðilar á Norður-Atlantshafi hefðu getu til að svara fljótt frá Keflavík eða í Keflavík. Hann gæti ekki sagt hvernig viðbúnaður væri bestur en eðli hans og tímasetningar yrði að ræða næstu mánuði og jafnvel ár. Íslendingar hefðu lagt áherslu á aðstöðu á Keflavíkurflugvelli fyrir leit og björgun. Ef til vill mætti skapa tengsl milli slíkrar starfsemi og varnarviðbúnaðar, það þyrfti að skoða nánar.
Undir lok fundarins sagði Gunnar Bragi íslensks stjórnvöld vilja halda allri aðstöðu á Keflavíkurflugvelli í því horfi að erlendar flugvélar undir merkjum NATO gætu „plug and play“, það er komið á völlinn og hafið þaðan aðgerðir innan fáeinna klukkustunda – þannig hefði það til dæmis verið fyrir skömmu þegar um 200 manna lið hefði birst til að stunda kafbátaleit frá vellinum.
Augljóst að inntak varnarsamstarfs Íslands og Bandaríkjanna breytist í samræmi við þróun öryggismála á norðurslóðum. Engum getur komið það á óvart. Um er að ræða stigmögnun vegna framgöngu Rússa sem leita eins og áður að veikasta hlekknum. Meginbreyting nú frá því sem áður var er þátttaka Finna og Svía í viðbragðsáætlunum undir merkjum NATO. Þróun nýtingar Keflavíkurflugvallar í þágu sameiginlegs öryggis hlýtur að taka mið af því.