Miðvikudagur 09. 09. 15
Í dag ræddi ég við myndlistarmanninn Tolla í þætti mínum á ÍNN. Hann segir frá því hvernig hann vann markvisst að því að ná sér eftir erfiðan krabbameinsuppskurð í sumar. Nú þremur mánuðum síðar er hann óvenjulega vel á sig kominn. Hann þakkar það ekki síst andlegu jafnvægi og sátt sem hann öðlast með hugleiðslu. Hana hefur Tolli stundað í sjö ár. Næst má sjá samtal okkar Tolla kl. 22.00 og síðan á tveggja tíma fresti til kl. 18.00 á morgun. Á tímaflakki Símans má sjá það hvenær sem er.
Á mbl.is má í dag lesa þessa frétt:
„Í staðinn fyrir að byggjast upp hægt og rólega var maður að rífa sig niður hægt og rólega,“ segir Sævar Ólafsson, íþróttafræðingur, sem hélt erindi á málþingi um andlega líðan íþróttamanna sem haldið var í Háskólanum í Reykjavík dag. Hann lék lengi knattspyrnu á sama tíma og hann var mjög þunglyndur.
Hafrún Kristjánsdóttir, sálfræðingur og sviðsstjóri íþróttasviðs Háskólans í Reykjavík, segir að rannsóknir bendi til að geðræn vandamál séu jafnvel algengari hjá afreksfólki í boltaíþróttum en hjá öðrum sambærilegum hópum í þjóðfélaginu.
Jafnframt segir hún að þrátt fyrir að umræða um geðheilsu íþróttamanna hafi verið áberandi á undanförnum misserum segir Hafrún að í raun sé ekkert verið að gera skipulega innan íþróttahreyfingarinnar til að takast á við vandamálin þegar þau koma upp.
„Það er mikil pressa, það eru miklar kröfur frá umhverfi: mögulega foreldrum, íþróttafélögunum sjálfum. Ofþjálfun getur leitt til þunglyndis, það sífellt verið að dæma þig,“ segir Hafrún og bendir á að ýmislegt í umhverfi íþróttamanna geti ýtt undir kvíða eða geðraskanir.“
Hér er greinilega um að ræða viðfangsefni sem yrði auðveldara viðfangs ef hugleiðsla væri hluti af þjálfun íþróttamanna. Margar aðferðir má stunda við hugleiðslu. Qigong er kjörin aðferð fyrir íþróttamenn til að viðhalda jafnvægi, sátt og hugarró sama hvað á bjátar. Ken Cohen, qigong-meistari, sem hefur verið hér á ferð ræddi um golf-qigong og knattspyrnu-qigong. Kínverskar bardagalistir eru þjóðaríþrótt Kínverja þær eru reistar á sama grunni og heilsu-qigong. Mælanlegur árangur qigong æfinga til að vinna á streitu, kvíða og þunglyndi hefur víða verið kynntur.