Föstudagur 25. 09. 15
Hafi einhver haldið að lög um að binda hendur ráðherra við skipun manna í embætti hæstaréttardómara og neyða hann til að fara að vilja nefndar mundu kveða niður ágreining um val á dómurum í réttinn hlýtur hann að skoða hug sinn í þessu efni kynni hans sér efni deilu sem hefur vaknað vegna nýs dómara sem nefnd manna ákvað að skyldi skipaður.
Á mbl.is í dag segir að Ólöf Nordal, innanríkisráðherra,telji að ástæða geti verið til að endurskoða lög um skipan í embætti hæstaréttardómara. Sem stendur hafi ráðherra þá kosti að fara að ráðgjöf fimm manna dómnefndar, eða senda málið til kasta alþingis. Á mbl.is segir:
„Ólöf segir að allir umsækjendurnir hafi verið hæfir en Karl Axelsson var valinn umfram þau Ingveldi Einarsdóttur og Davíð Þór Björgvinsson.
„Í þjóðfélaginu geta verið margvísleg sjónarmið sem mönnum finnst ekki endurspeglast í réttinum. Á ráðherra þá ekki að geta haft eitthvað svigrúm til þess að velja úr tveimur jafn hæfum einstaklingum. Mér finnst það vera sjónarmið sem ástæða er til að velta upp í ljósi þeirrar fimm ára reynslu sem við höfum af lögunum,“ segir Ólöf.
Lögin voru sett með það markmið að takmarka vald ráðherra í kjölfar þess að upp komu umdeildar ráðningar í hæstarétt þar sem ráðherra tók ákvarðanir um ráðningu sem var á skjön við ráðgjöf. Ólöf segist ekki halda því fram að endilega sé ástæða sé til þess að fara aftur til slíks háttalags, en veltir því fyrir sér hvort að mögulegt sé að fara þriðju leiðina í þessu samhengi. „Er það eðlilegt að ráðherra hafi ekkert um málið að segja?,“ veltir Ólöf upp.“
Skýring blaðsins að lögum hafi verið breytt vegna „umdeildra ráðninga“ gefur þá skoðun til kynna að unnt sé að finna eitthvert kerfi sem kemur í veg fyrir deilur. Svo er auðvitað ekki. Lögunum var breytt til að þeir sem sitja í hæstarétti hefðu tök á að ákveða hvern þeir fengju í réttinn með sér. Einsleitnin við val dómara eftir nýju reglunum felur í sér að konur eru settar skör lægra en karlar. Innrækt af þessu tagi er ávallt hættuleg og almennt talin leiða til úrkynjunar.