25.9.2015 23:30

Föstudagur 25. 09. 15

Hafi einhver haldið að lög um að binda hendur ráðherra við skipun manna í embætti hæstaréttardómara og neyða hann til að fara að vilja nefndar mundu kveða niður ágreining um val á dómurum í réttinn hlýtur hann að skoða hug sinn í þessu efni kynni hans sér efni deilu sem hefur vaknað vegna nýs dómara sem nefnd manna ákvað að skyldi skipaður.

Á mbl.is í dag segir  að Ólöf Nor­dal, inn­an­rík­is­ráðherra,telji að ástæða geti verið til að end­ur­skoða lög um skip­an í embætti hæsta­rétt­ar­dóm­ara. Sem stend­ur hafi ráðherra þá kosti að fara að ráðgjöf fimm manna dóm­nefnd­ar, eða senda málið til kasta alþing­is. Á mbl.is segir:

„Ólöf seg­ir að all­ir um­sækj­end­urn­ir hafi verið hæf­ir en Karl Ax­els­son var val­inn um­fram þau Ing­veldi Ein­ars­dótt­ur og Davíð Þór Björg­vins­son.

„Í þjóðfé­lag­inu geta verið marg­vís­leg sjón­ar­mið sem mönn­um finnst ekki end­ur­spegl­ast í rétt­in­um. Á ráðherra þá ekki að geta haft eitt­hvað svig­rúm til þess að velja úr tveim­ur jafn hæf­um ein­stak­ling­um. Mér finnst það vera sjón­ar­mið sem ástæða er til að velta upp í ljósi þeirr­ar fimm ára reynslu sem við höf­um af lög­un­um,“ seg­ir Ólöf.

Lög­in voru sett með það mark­mið að tak­marka vald ráðherra í kjöl­far þess að upp komu um­deild­ar ráðning­ar í hæsta­rétt þar sem ráðherra tók ákv­arðanir um ráðningu sem var á skjön við ráðgjöf. Ólöf seg­ist ekki halda því fram að endi­lega sé ástæða sé til þess að fara aft­ur til slíks hátta­lags, en velt­ir því fyr­ir sér hvort að mögu­legt sé að fara þriðju leiðina í þessu sam­hengi. „Er það eðli­legt að ráðherra hafi ekk­ert um málið að segja?,“ velt­ir Ólöf upp.“

Skýring blaðsins að lögum hafi verið breytt vegna „umdeildra ráðninga“ gefur þá skoðun til kynna að unnt sé að finna eitthvert kerfi sem kemur í veg fyrir deilur. Svo er auðvitað ekki. Lögunum var breytt til að þeir sem sitja í hæstarétti hefðu tök á að ákveða hvern þeir fengju í réttinn með sér. Einsleitnin við val dómara eftir nýju reglunum felur í sér að konur eru settar skör lægra en karlar. Innrækt af þessu tagi er ávallt hættuleg og almennt talin leiða til úrkynjunar.