Miðvikudagur 02. 09. 15
Í dag ræddi ég við Reyni Ingibjartsson, höfund sex göngubóka, í þætti mínum á ÍNN. Síðasta bók Reynis í þessum flokki kom út snemma sumars, 25 gönguleiðir á Þingvallasvæðinu. Í upphafi samtals okkar gat ég þess að á dögunum birti The Daily Telegraph frétt um að rannsóknir sýndu að 25 mínútna ganga á dag gæti lengt líf manna um allt að sjö árum.
Reynir velur gönguleiðir sínar af kostgæfni og fer síður en svo alltaf troðnar slóðir. Hann kýs einnig frekar að fara eftir örnefnum en gps-hnitum. Samtal okkar má sjá klukkan 20.00 í kvöld á ÍNN og síðan á tveggja tíma fresti til kl. 18.00 á morgun, þeir sem hafa flakk Símans geta ákveðið sjálfir hvenær þeir horfa á þáttinn eftir klukkan 20.00.
Í morgun var ég í Morgunútgáfu ríkisútvarpsins kl. 07.30 ásamt Kenneth Cohen, qi gong meistara, og ræddum við um qi gong og fyrirlestur Cohens á morgun kl. 19.00 til 21.00 í húsi SÁÁ Efstaleiti 7. Cohen verður einnig með qi gong námskeið á Kvoslæk í Fljótshlíðinni um helgina, sjá hér.