Mánudagur 21. 09. 15
Hinn 11. september 2014 kynnti Reykjavíkurborg nýtt nýtt auðkenni og slagorð fyrir Reykjavík sem áfangastað það er Reykjavík Loves. Samband sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) hélt samkeppni um markaðsefni fyrir svæðið í heild og bar Íslenska auglýsingastofan sigur úr býtum. Auðkennið var formlega kynnt á fundi Ferðamálasamtaka höfuðborgarsvæðisins í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi þennan dag fyrir rúmu ári.
Var slagorðið unnið úr þeim gildum að Reykjavík þætti vinaleg, litrík, nútímaleg, menningarleg og friðsæl. Hugmyndin var að borgin eignaðist lifandi slagorð þar sem Reykjavík væri gestgjafinn og tæki gestum sínum og íbúum opnum örmum. Í hugmyndinni var unnið markvisst með liti borgarinnar, aðalliturinn er himinblár en stuðningslitir koma frá litríkum húsþökum, norðurljósum, steinsteypu, grasgrænu og fleiri einkennandi litum í borgarlandslaginu eins og segir í frétt á mbl.is um hið nýja slagorð fyrir ári.
Svanhildur Konráðsdóttir, sviðsstjóri menningar- og ferðamálasviðs borgarinnar, talaði nýlega fyrir því að þetta slagorð Reykjavíkurborgar yrði tengt heiti Keflavíkurflugvallar. Hinn 18. september 2015 birti Reykjavíkurborg á vefsíðu sinni ávarp Dags B. Eggertssonar borgarstjóra. Undir myndbandi stendur: „Reykjavíkurborg tekur áskorun Rauða krossins um að vera virkur þátttakandi í átakinu Vertu næs. Dagur B. Eggertsson ríður á vaðið og er næs.“
Þetta birtist á vefsíðunni sama dag og rann upp fyrir Degi B. að hann hedði ekki verið næs með því að samþykkja Bjarkarkveðjuna til Ísraela í borgarstjórn þriðjudaginn 15. september.
Í dag hafa upplýsingafulltrúar Icelandair og WOW air skýrt frá afbókunum ferðamanna vegna Bjarkarkveðjunnar til Ísraela. Málið hefur þegar haft mikil áhrif á ferðaþjónustuna á Íslandi sagði Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW við mbl.is og bætti við að félagið hefði jafnframt áhyggjur af íslenska kvikmyndaiðnaðinum sem hefði verið ein besta landkynningin á síðustu árum.
Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, sagði á mbl.is að félagið hefði fengið mikið af athugasemdum á samfélagsmiðlum auk skilaboða um að fólk hefði hætt við ferðir, söluaðlar hætt að selja Íslandsferðir, hætt hefði verið við ráðstefnur og að fólk mundi sniðganga Icelandair.
Að Degi B. Eggertssyni borgarstjóra þyki sjálfsagt að sitja áfram í embætti sínu og státa sig af „að vera næs“ er aðeins enn ein sönnunin á dómgreindarbrestinum í ráðhúsinu. Fólkinu sem þar ræður er ekki treystandi til að bæta skaðann sem það hefur valdið.