21.9.2015 18:00

Mánudagur 21. 09. 15

Hinn 11. september 2014 kynnti Reykjavíkurborg nýtt nýtt auðkenni og slag­orð fyr­ir Reykja­vík sem áfangastað það er  Reykja­vík Loves. Sam­band sveit­ar­fé­laga á höfuðborg­ar­svæðinu (SSH) hélt sam­keppni um markaðsefni fyr­ir svæðið í heild og bar Íslenska aug­lýs­inga­stof­an sig­ur úr být­um. Auðkennið var form­lega kynnt á fundi Ferðamála­sam­taka höfuðborg­ar­svæðis­ins í Lista­safni Reykja­vík­ur – Hafn­ar­húsi þennan dag fyrir rúmu ári.

Var slagorðið unnið úr þeim gildum að Reykjavík þætti vina­leg, lit­rík, nú­tíma­leg, menn­ing­ar­leg og friðsæl. Hug­mynd­in var að borgin eignaðist lif­andi slag­orð þar sem Reykja­vík væri gest­gjaf­inn og tæki gest­um sín­um og íbú­um opn­um örm­um. Í hug­mynd­inni var unnið mark­visst með liti borg­ar­inn­ar, aðallit­ur­inn er him­in­blár en stuðningslit­ir koma frá lit­rík­um húsþökum, norður­ljós­um, stein­steypu, grasgrænu og fleiri ein­kenn­andi lit­um í borg­ar­lands­lag­inu eins og segir í frétt á mbl.is um hið nýja slagorð fyrir ári.

Svanhildur Konráðsdóttir, sviðsstjóri menningar- og ferðamálasviðs borgarinnar, talaði nýlega fyrir því að þetta slagorð Reykjavíkurborgar yrði tengt heiti Keflavíkurflugvallar. Hinn 18. september 2015 birti Reykjavíkurborg á vefsíðu sinni ávarp Dags B. Eggertssonar borgarstjóra. Undir myndbandi stendur: „Reykjavíkurborg tekur áskorun Rauða krossins um að vera virkur þátttakandi í átakinu Vertu næs. Dagur B. Eggertsson ríður á vaðið og er næs.

Þetta birtist á vefsíðunni sama dag og rann upp fyrir Degi B. að hann hedði ekki verið næs með því að samþykkja Bjarkarkveðjuna til Ísraela í borgarstjórn þriðjudaginn 15. september.

Í dag hafa upplýsingafulltrúar Icelandair og WOW air skýrt frá afbókunum ferðamanna vegna Bjarkarkveðjunnar til Ísraela. Málið hef­ur þegar haft mik­il áhrif á ferðaþjón­ust­una á Íslandi sagði Svan­hvít­ Friðriks­dótt­ir, upp­lýs­inga­full­trúi WOW við mbl.is og bæt­ti við að fé­lagið hefði jafn­framt áhyggj­ur af ís­lenska kvik­myndaiðnaðinum sem hefði verið ein besta land­kynn­ing­in á síðustu árum.

Guðjón Arn­gríms­son, upp­lýs­inga­full­trúi Icelanda­ir, sagði á mbl.is að fé­lagið hefði fengið mikið af at­huga­semd­um á sam­fé­lags­miðlum auk skila­boða um að fólk hefði hætt við ferðir, söluaðlar hætt að selja Íslands­ferðir, hætt hefði verið við ráðstefn­ur og að fólk mundi sniðganga Icelanda­ir.

Að Degi B. Eggertssyni borgarstjóra þyki sjálfsagt að sitja áfram í embætti sínu og státa sig af „að vera næs“ er aðeins enn ein sönnunin á dómgreindarbrestinum í ráðhúsinu. Fólkinu sem þar ræður er ekki treystandi til að bæta skaðann sem það hefur valdið.