14.9.2015 19:15

Mánudagur 14. 09. 15

Leyniþjónusta dönsku lögreglunnar, Politiets Efterretningstjeneste (PET), varaði í síðustu viku við því að það kynnu að vera einstaklingar hlynntir herskáum íslamistum meðal flóttamanna og farandfólks í Danmörku. Hafa beri þetta í huga við áhættumat vegna Danmerkur.

Danska blaðið Berlingske Tidende lagði spurningu um þetta efni fyrir PET og birti svarið fimmtudaginn 10. september. Í svarinu til blaðsins sagði PET að meðal flóttamanna frá Sýrlandi/Írak gætu verið einstaklingar hlynntir herskáum íslamistum og þeir kynnu að falla fyrir áróðri um að ráðast beri gegn þeim ríkjum sem eigi aðild að fjölþjóða samstarfinu um að brjóta Íslamska ríkið á bak aftur, þar á meðal Danmörku,

Á blaðamannafundi fimmtudaginn 10. september var Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Dana, spurður hvort hætta væri á að hryðjuverkamenn leyndust meðal útlendinga sem dveldust í Danmörku. Hann sagði lögregluna fylgjast með ástandinu, hann og formenn annarra flokka bæru fyllsta traust til hennar.

PET bendir á að hugsanlegt sé öryggi aðkomufólksins verði ógnað af heimamönnum sem sætti sig ekki við dvöl þess í Danmörku. Ástandið kunni að vekja pólitískar öfgatilfinningar í hjörtum Dana.

Reglur Dana um útlendingamál og hælisleitendur eru strangari en reglur Svía svo að dæmi sé tekið enda sækjast mun færri eftir hæli í Danmörku en Svíþjóð. Í samanburði milli danskra og sænskra reglna er til dæmis nefnt að það sé grundvallamunur á að veitt tímabundið dvalarleyfí í eitt ár í upphafi og síðan tvö ár hverju sinni heldur en strax er veitt ótímabundið dvalarleyfi. Slíkur munur á reglum geti skipt sköpum við val hælisleitanda á umsóknarlandi. Hann hafi ef til vill greitt smyglaranum sem kom honum inn í Evrópu eina milljón ísl. króna eða meira. Hann geri því allt til að komast hjá að verða sendur fljótt til baka. Danir hafa ströngustu reglur um þetta innan ESB sem dregur úr áhuga hælisleitenda á landi þeirra. Þá er fjárstuðningur við flóttamenn minni í Danmörku en Svíþjóð.

Drög að nýjum útlendingalögum liggja nú fyrir hjá innanríkisráðherra sem tekur ákvörðun um flutning frumvarps um málið á alþingi. Við frágang málsins í ráðuneytinu er óhjákvæmilegt að taka mið af upplausninni sem nú ríkir í Schengen-samstarfinu og til hvaða breytinga hún leiðir á inntaki samstarfsins.