Þriðjudagur 08. 09. 15
Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands gagnrýndi í ræðu við þingsetningu í dag bæði hugmyndir um breytingu á stjórnarskránni og aðferðina við að breyta henni ef kjósa ætti um málið samhliða kjöri forseta sumarið 2016 í nafni sparsemi og hagræðis. Hann sagði meðal annars:
„Efnisrökin [fyrir breytingum] eru hvorki tilvísun í þjóðarheill né ríkan vilja landsmanna, heldur almennt tal um alþjóðasamstarf, lagatækni og óskir embættismanna. Íslandi hefur þó allt frá lýðveldisstofnun tekist vel að stunda fjölþætt alþjóðasamstarf á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, Norðurlandaráðs, NATO, EFTA og fleiri bandalaga, eiga gjöful og margþætt tengsl við ríki, stór og smá, í öllum álfum án þess að þörf væri að breyta fullveldisákvæðum lýðveldisins; hinum helga arfi sjálfstæðisins.[…]
Tenging við forsetakosningar næsta vor skiptir í þessum efnum litlu og er jafnvel andlýðræðisleg í eðli sínu. Sé talin nauðsyn að breyta stjórnarskrá í grundvallarefnum eru útgjöld vegna sérstakrar þjóðaratkvæðagreiðslu um þau efni léttvæg lóð enda eðlilegt að þjóðin fái ótrufluð af öðru að vega og meta slíkar breytingar.“
Hér skal tekið undir þessi meginsjónarmið forseta Íslands. Eftir deilurnar sem ESB-aðildarumsóknin olli er fráleitt að stofna nú til deilna vegna hugmynda um breytingar á fullveldisákvæðum stjórnarskrárinnar til að búa í haginn fyrir valdaafsal til Brussel – á sama tíma og ESB-ríkin vilja draga úr Brusselvaldinu yfir þjóðþingum sínum.
Ekkert knýr á um breytingar á fullveldisákvæðum stjórnarskrárinnar. Einkum þegar kröfur í því miða að minna fullveldi, afsal valds þjóðarinnar á eigin málum.
Að sameina þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar og kosningu forseta í nafni sparnaðar og hagsýni felur í sér lítilsvirðingu í garð stjórnarskrárinnar og forsetaembættisins. Á öðru er nauðsyn.