Þriðjudagur 01. 09. 15
Í morgun klukkan 08.15 ók ég suður í Hafnarfjörð eftir Kringlumýrarbrautinni og var samfelld bílaröð á móti mér, bílar á leið til borgarinnar, allt að gatnamótunum í Engidal, það er í Hafnarfirði. Stundum hef ég farið þessa leið áður um svipað leyti en aldrei séð eins mikla umferð og nú. Forvitnilegt væri að vita hvað menn ætla sér langan tíma til að komast í skóla eða vinnu þegar farin er þess leið uppúr kl. 08.00 á morgnana.
Niðurstaða skoðanakönnunar um fylgi flokkanna var birt í dag á ruv.is:
„Kjörtímabilið er hálfnað og enn má sjá miklar breytingar í nýjasta þjóðarpúlsi Gallup. Píratar, sem bætt hafa stöðugt við fylgi sitt frá ársbyrjun, bæta við sig um fjórum prósentustigum frá síðasta mánuði og mælast nú með 36 prósenta fylgi. Það er mesta fylgi sem Píratar hafa mælst með og enginn annar flokkur hefur mælst með viðlíka stuðning á kjörtímabilinu.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur aðeins einu sinni mælst með minna fylgi. Hann mælist nú með 21,6 prósent. Það er um tveimur prósentustigum minna en í síðasta mánuði og minnsti stuðningur sem flokkurinn hefur mælst með síðan í nóvember 2008. Þá mældist hann með einu prósentustigi minna en nú.
Vinstri hreyfingin grænt framboð bætir við sig og mælist með tæplega 12 prósenta fylgi og Framsóknarflokkurinn með um 11 prósent. Samfylkingin tapar þremur prósentustigum og mælist með níu prósent.
Fylgi flokksins hefur ekki mælst minna í 17 ár eða síðan í maí 1998 - ári áður en flokkurinn bauð fyrst fram til Alþingis. Flokkurinn mældist með 9,3 prósent fylgi í könnun sem MMR gerði í byrjun júlí.
Björt framtíð mælist með 4,4 prósent. Það er minnsta fylgi sem flokkurinn hefur mælst með á kjörtímabilinu.
34 prósent kjósenda styðja ríkisstjórnina - það er tveimur prósentustigum minni stuðningur en í síðasta mánuði.“
Þessar tölur sýna fyrst og síðast skort á pólitískri sannfæringu og að stjórnmálamenn skortir skírskotun til kjósenda. Allir flokkar þurfa að gera betur. Þeir feykjast úr einu í annað hvort sem um er að ræða viðskipti við Rússa eða móttaka flóttamanna. Hvar er fasti punkturinn? Ekki hjá Pírötum, samnefnara óvissunnar.