19.9.2015 18:15

Laugardagur 19. 09. 15

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri tilkynnti í dag að tillagan um viðskiptabann á Ísrael frá þriðjudeginum 15. september í kveðjuskyni við Björk Vilhelmsdóttur (Samfylkingu) við brottför hennar úr borgarstjórn yrði dregin til baka. Í samtali við mbl.is sagði Dagur B. að tillagan hefði verið skilin sem ætlunin væri að „sniðganga“ allar vörur frá Ísrael. Hugsunin hefði verið „að sniðganga aðeins vör­ur sem fram­leidd­ar væru á her­námssæðinu". Þetta væri mikilvægt að leiðrétta. Hann hefði átt „gott samtal“ við borgarstjóra Kaupmannahafnar í hádegi laugardags 19. september sem sagði Degi B. að halda sér við hernumdu svæðin en ekki Ísrael allt. „Hann ætl­ar að vera okk­ur inn­an hand­ar,“ sagði Dagur B. um borgarstjóra Kaupmannahafnar.

Það þurfti sem sé borgarstjórann í Kaupmannahöfn til að koma vitinu fyrir Dag B. sem hafði þó látið eins hann hefði frá upphafi farið að fordæmi Kaupmannahafnar. Þar fór Dagur B. með rangt mál. Borgarstjóri lagði greinilega ekki neitt á sig til að kynna sér efni og afleiðingu kveðjutillögu Bjarkar – hann samþykkti hana í anda klúbbs borgarfulltrúa.

Að baki tillögu Bjarkar er hugmyndafræði hreyfingarinnar Boycott, Divestment and Sanctions Movement (BDS Movement) – Hreyfingin gegn viðskiptum, fjárfestingum og til stuðnings refsiaðgerðum. Þessi hreyfing kom til sögunnar árið 2005 og nær hún til allra landa til að auka efnahagslegan og stjórnmálalegan þrýsting á Ísrael í þágu markmiða hreyfingarinnar sem eru: brottför Ísraela af hernumdu svæðunum og stöðvun landnáms Ísraela í Palestínu, algjört jafnrétti fyrir ríkisborgara Ísraels af ættum araba og Palestínumanna og virðing fyrir rétti palestínskra flóttamanna til að koma til baka. Innan þessarar hreyfingar líkja menn ástandinu í Ísrael saman við það sem var í Suður-Afríku á tíma aðskilnaðarstefnu (apartheid) hvítra og svartra.

Gagnrýnendur BDS segja hreyfinguna ala á gyðingahatri og grafa undan lögmæti tilveru Ísraels. Þá saka þeir hreyfinguna einnig um að beita hótunum, stunda mútur og þvinganir til að fá fólk til stuðnings við BDS.

Talsmenn BDS fögnuðu ályktun borgarstjórnar Omar Barghouti sagði ekkert geta „afturkallað hinn siðferðilega sigur sem felst í þessu nýja íslenska viðskiptabanns-eldgosi, það brýtur tabú“. Dagur B. hefur nú gert þennan fögnuð að engu. Hann segir þau Björk ekki hafa undirbúið tillöguna nógu vel.