Mánudagur 21.6.1999
Við Rut héldum til Parísar á mánudeginum, þar sem ég sat ráðherrafund á vegum OECD 22. og 23. júní um rannsóknir og vísindi og tók þátt í umræðum. Einnig gafst okkur tækifæri til að fara í Bastillu-óperuna og sjá glæsilega sýningu á Don Carlos eftir Verdi, þar sem Kristinn Sigmundsson söng hlutverk yfirmanns spænska rannsóknarréttarins og hlaut gott lof áheyrenda. Hittum við Kristin í stutta stund baksviðs að sýningu lokinni og lýstum stolti okkar yfir að hafa verið meðal áheyrenda hans. Hann var einnig með veigamikið hlutverk í Don Giovanni í óperunni þessa sömu daga. Kristinn vakti athygli okkar á því, hve risavaxið óperuhúsið er, listrænn metnaður þess er ekki síður mikill og það talið meðal hinna bestu í Evrópu. Þá átti ég einnig fund með Íslendingum í París, sem hafa unnið að því að undirbúa víðtæka menningarkynningu þar og vilja stofna til samstarfs við menntamálaráðuneytið.