Laugardagur 26.6.1999
Frá París flugum við til Berlínar og vorum þar í nokkurra daga fríi með vinum okkar. Skoðuðum við meðal annars Reichstag-bygginguna, það er þinghúsið, sem var brennt á tímum nasista, og stóð sem hálfgerð rúst við Múrinn í næsta nágrenni Brandenborgarhliðsins, þar til Þýskaland var sameinað og hefur nú verið endurreist með glæsilegum hætti. Starfsmaður þingsins fylgdi okkur um bygginguna og sýndi jafnt þingsalinn sem fundarherbergi þingflokka. Síðan gengum við upp í glerhvolfið yfir þingsalnum, sem teygir sig upp úr byggingunni og þaðan sést yfir alla Berlín. Tugir þúsunda manna heimsækja þinghúsið á degi hverjum og ganga upp í hvolfið. Norðurlöndin fimm fengu lóð á besta stað í Berlín, tiltölulega skammt frá þinghúsinu, til að reisa skrifstofur fyrir sendiráð sín og eru húsin fimm reist í þyrpingu og er ætlunin að opna þau formlega 20. október nk. Við fórum í íslenska húsið, sem er á lokastigi. Varð okkur ljóst af samtölum við Berlínarbúa, að þar vita menn svo sannarlega af því, að Norðurlöndin eru að reisa sendiráðsbyggingar sínar á þessum virðulega stað. Þá skruppum við einnig til Potsdam, sem áður var í Austur-Þýskalandi. Fórum í Sanssouci-höllina, sem Frikrik mikli reisti. Einnig fórum við í Cecelienhof, þar sem Potsdam-fundur þeirra Stalíns, Trumans, Churchills og síðan Atlees var haldinn. Loks heimsóttum við húsið við Wannsee, þar sem Wannsee-ráðstefnan illræmda fór fram, en þar lögðu nasistar á ráðin um útrýmingu gyðinga. Var óhugnanlegt að ganga þar um sali, en húsið var opnað almenningi árið 1992 og er einkum ætlað til þess að fræða ungt fólk um þennan þátt í grimmdarverkum nasista. Segja má að á þessum litla bletti í Potsdam og nágrenni megi fá mynd af stóratburðum í þýskri sögu. Ekki var síður fróðlegt að fara inn í Potsdam-bæinn sjálfan og sjá, hvernig unnið er að því að reisa hann úr rústum kommúnismans. Fyrir framtaksleysi miðstjórnarkerfisins voru reisluleg hús látin drabbast niður og nú rísa þau úr öskustónni, kannski ríkulegri enn nokkru sinni fyrr. Heim fórum við frá Berlín um Charles de Gaulle flugvöll í París. Vél Flugleiða var eins og endranær á áætlun en hins vegar fór allt í handaskolum hjá afgreiðslumönnum vallarins með farangur okkar, sem fylgdi okkur ekki heim og er ein taskan enn týnd. Segja liprir starfsmenn Flugleiða í tapað-fundið á Keflavíkurflugvelli að með ólíkindum sé að fylgjast með vinnubrögðunum á Parísarvellinum. Skil ég ekki hvernig Frakkar hyggjast gera Charles de Gaulle völl að helstu miðstöð millilandaflugs í Evrópu, ef þeir geta ekki einu sinni séð um að koma tveimur töskum á milli flugvéla á tæpum tveimur tímum.