19.7.2013 23:55

Föstudagur 19. 07. 13

Ken Rudd, nýr forsætisráðherra Ástralíu, tilkynnti í dag að framvegis kæmi ekki einn einasti hælisleitandi til Ástralíu. Þeir yrðu allir fluttir til Papúa Nýju-Gíneu þar sem þeir myndu dveljast. Í BBC var rætt við þingmann þess kjördæmis þar sem hælisleitendurnir munu búa á Papúa Nýju-Gíneu og var hann í skýjunum yfir að samningur hefði tekist um þetta við ríkisstjórn Ástralíu. Þetta þýddi að Ástralar myndu leggja betri flugvöll í kjördæmi hans og skapa fjölda fólks vinnu. Flóttamennirnir myndu ekki trufla líf heimamanna því að þeir yrðu í sérstökum búðum á kostnað Ástrala. Það væri skiljanlegt að ríkisstjórn Ástralíu tæki þessa ákvörðun það hlyti hver maður að sjá hve óeðlilegt væri að óboðnir reyndu að komast bakdyramegin inn í eitthvert land.

Ken Rudd er úr Verkamannaflokknum í Ástralíu, hann var nýlega endurkjörinn flokksleiðtogi eftir nokkurra ára hlé. Í fyrri leiðtogatíð sinni fylgdi hann hefðbundinni stefnu Verkamannaflokksins sem er reist á vilja til að taka við hælisleitendum. Stefnan mælist almennt illa fyrir meðal Ástrala og með kúvendingu sinni ætlar Rudd að skáka hægri mönnum í kosningum sem talið er að hann boði fljótlega.

Markmið forsætisráðherrans er að bjarga lífi flokks síns og boða stefnu sem hann telur að geti aflað honum nægilegs fylgis til að halda völdum í næstu kosningum.