7.7.2013 22:40

Sunnudagur 07. 07. 13

Samtal mitt við Birgi Ármannsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins og formann utanríkismálanefndar alþingis, er komið inn á netið og má sjá það hér .

Vangaveltur um hvort Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, skrifar undir lög um breytingu á veiðigjaldi eða ekki hafa sett svip á fréttir ríkisútvarpsins um helgina og menn verið kallaðir til með og á móti.

Þar sem um geðþóttaákvörðun forseta er að ræða og hann þarf ekki að rökstyðja hana frekar en hann vill geta menn velt þessu máli endalaust fyrir sér og lýsa í raun ekki öðru að lokum en eigin skoðun á veiðigjaldsmálinu. Stjórnarandstaðan vill leggja stein í götu þess að lög sem hún hafnaði verði staðfest en stjórnarsinnar vilja að lögin nái strax fram að ganga.

Að ákvæði 26. gr. stjórnarskrárinnar sé arfur frá tíma einvaldskonungs skýrist æ betur eftir því sem fleiri bænaskrár eru lagðar fyrir forseta Íslands og hann setur sig í stellingar til að ákveða hvort hann eigi að skrifa frekar undir ein lög en önnur. Þessi framkvæmd er í andstöðu við þingræðislega stjórnarhætti.

Að hafa þann varnagla í stjórnlögum að bera megi mál undir þjóðina að uppfylltum gagnsæjum skilyrðum er sjálfsagt og eðlilegt, hitt er fráleitt að láta slíkt ráðast af geðþótta eins manns.