1.7.2013 22:10

Mánudagur 01. 07. 13

Í ritdómi um sjálfsævisögu Svavars Gestssonar í nýjasta hefti Þjóðmála segir Styrmir Gunnarsson að Svavar geri ekki upp við tengsl Alþýðubandalagsins við kommúnista í A-Evrópu á skilmerkilegan hátt. Styrmir segir þetta bagalegt því að fyrir utan Svavar sé líklega enginn fær um að segja hið sanna og rétta um þau mál öll en Kjartan Ólafsson sem var ritstjóri Þjóðviljans eins og Svavar auk þess sem Kjartan var innsti koppur í búri Sósíalistaflokksins, arftaka Kommúnistaflokks Íslands.

Þessi ábending Styrmis um einstæða vitneskju Kjartans kom mér í hug þegar ég kveikti fyrir tilviljun á rás 1 um 11.30 í morgun og kom inn í þáttinn Sjónmál sem Hanna G. Sigurðardóttir stjórnar. Þar fór viðmælandi hennar mikinn vegna gömlu hleranamálanna sem rædd voru mikið árið 2006 en voru nú komin á dagskrá að nýju í þessum þætti sem ég hef aldrei hlustað á áður og vissi ekki að væri enn einn einhliða pólitískur þáttur á vegum ríkisútvarpsins. Þarna var þá sjálfur Kjartan Ólafsson enn kominn á kreik til að tala um þá hneisu að einhverjum skyldi hafa dottið í hug að hlera síma hans og annarra kommúnista hér á landi á tíma kalda stríðsins – allt var það gert að fengnum úrskurði dómara en Kjartan og skoðanabræður hans láta eins og um tilhæfulausar pólitískar ofsóknir á hendur sér hafi verið að ræða.

Augljóslega vakti ekki fyrir Hönnu G. Sigurðardóttur að kynna báðar hliðar þessa máls og því síður datt henni í hug að leggja spurningar fyrir Kjartan Ólafsson um tengsl hans og annarra skoðanabræðra hans við einræðisflokkana í A-Evrópu. Skyldi þáttarstjórnandinn ekki gera sér grein fyrir að síðan 2006 hefur dr. Þór Whitehead, sagnfræðiprófessor við Háskóla Íslands, skrifað ítarlega bók sem setur þetta mál allt í miklu trúverðugra samhengi en birtist í einræðu Kjartann Ólafssonar?  Málflutningurinn í þættinum einkenndist af sérkennilegri sjálfsvorkunn. Kommúnistar hafa aldrei sýnt stjórnmálaandstæðingum neina miskunn og vildu misnota lýðræðið til að grafa undan því.

Hvað vakti fyrir Hönnu G. Sigurðardóttur með þessum efnistökum í miðli sem lögum samkvæmt ber að kynna mál á hlutlægan hátt? Hvers vegna gerði hún ekki minnstu tilraun til að reifa sjónarmið þeirra sem andmæla kveinstöfum Kjartans Ólafssonar? Þá hefði mátt láta þess getið að símahleranir lögreglu hafa aldrei verið meiri í Íslandssögunni en í ráðherratíð Ögmundar Jónassonar, flokksbróður Kjartans.