22.7.2013 22:10

Mánudagur 22. 07. 13

Mikillar tvöfeldni gætir í umræðum á opinberum vettvangi. Annars vegar er hópur fólks sem telur sér heimilt að vega að öðrum á algjörlega ómálefnalegan hátt með skömmum og svívirðingum. Þetta fólk lætur einkum að sér kveða með neikvæðum upphrópunum og ásökunum í netheimum. Hins vegar er hópur fólks sem býður fram krafta sína til starfa fyrir samfélagið og axlar ábyrgð á orðum sínum. Þegar þetta fólk segir skoðun sína er eins og því séu settar einhverjar skorður, það megi ekki lýsa afstöðu sinni, hvað það telur sig hafa gert rétt eða rangt.

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, ræðir við Þóru Tómasdóttur, ritstjóra tímaritsins Nýs lífs, og í öðrum fjölmiðlum hefur athygli verið dregin að orðum hennar þar sem hún segist skammast sín fyrir að hafa staðið að kjöri Ólafs F. Magnússonar sem borgarstjóra í janúar 2008. Fyrir þetta hefur hún verið ávítt.

Ég sat í borgarstjórn í fjögur ár 2002 til 2006 og minnist þess ekki að Ólafur F. hafi látið vinsamleg orð falla í garð okkar sjálfstæðismanna og þótti því sérkennilegt þegar hann tók yfirleitt í mál að gegna embætti borgarstjóra með stuðningi þeirra. Mér finnst ekki á nokkurn hátt ámælisvert að Þorbjörg Helga segi skoðun sína á þessu máli eða öðrum.

Einn þeirra sem gekk fram fyrir skjöldu og gagnrýndi Þorbjörgu Helgu var Sigurjón M. Egilsson, fjölmiðlamaður og álitsgjafi á Bylgjunni. Því ber að sýna samúð að Sigurjóni M. sé misboðið þegar fólk lýsir opinberlega yfir að það skammist sín fyrir aðild sína að einhverju opinberu máli. Í mínum huga er hann marklaus fjölmiðlamaður á meðan hann gerir ekki upp við þjónkun sína við Baugsmenn þegar þeir beittu fjölmiðlum sínum purkunarlaust í eigin þágu og höfðu framvarðarsveit sem beitti stílvopni sínu fyrir eigendur Baugsmiðlanna. Þar lá Sigurjón M. ekki á liði sínu. Það eru meðmæli með Þorbjörgu Helgu sem stjórnmálamanni að Sigurjón M. hallmæli henni.