20.7.2013 23:55

Laugardagur 20. 07. 13

Séra Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup í Skálholti, setti Skálholtshátíð klukkan 12.00 í dag á tröppum Skálholtskirkju.  Þaðan var gengið að Þorlákssæti þar sem séra Kristján Valur og og séra Egill Hallgrímsson, prestur í Skálholti, sungu messu.

Eftir hádegisverð opnaði séra Kristján Valur sýningu í Skálholtsskóla „Hálfrar aldar hátíð“ en nú er minnst að 50 ár eru liðin frá því að kirkjan fékk Skálholt til eignar og dómkirkjan var vígð.

Þá flutti Guðmundur G. Þórarinsson tæplega 60 mínútna erindi um hina fornu sögualdartaflmenn frá Ljóðhúsum á Suðureyjum – The Lewis Chessmen – sem hann telur að hafi verið gerðir af Margréti hinni oddhögu í Skálholti á dögum Páls biskups Jónssonar. Guðmundur G. flutti sannfærandi rök fyrir að taflmennirnir væru íslenskir að uppruna.

Niðurstöður Guðmundar G. Þórarinssonar um þetta efni eru stórmerkilegar og vekja athygli langt út fyrir landsteinana.

Fræðasamfélagið hér á landi er ákaflega íhaldssamt gagnvart nýjum hugmyndum þótt þær séu studdar sterkum rökum. Dr. Helgi Guðmundsson prófessor ritaði þó á sínum tíma bókina Um haf innan þar sem færð eru sannfærandi rök fyrir mikilvægi Grænlandssamskipta fyrir ríkidæmi Íslendinga um svipað leyti og sögualdartaflmennirnir voru gerðir.

Síðdegis söng kór Breiðholtskirkju undir stjórn Arnar Magnússonar í Skálholtskirkju og að loknum aftansöng og kvöldverði lék Skálholtskvartettinn tvo kvartetta eftir Joseph Haydn.