13.7.2013 23:55

Laugardagur 13. 07. 13

Páll Magnússon útvarpsstjóri skrifar skammargrein um Davíð Oddsson, ritstjóra Morgunblaðsins, í Fréttblaðið, ber blak af ríkisútvarpinu og hallmælir Morgunblaðinu. Fréttastofa ríkisútvarpsins birtir auglýsingu um eigið ágæti í sjónvarpinu. Er einhver fjölmiðlakönnun í gangi? Könnun á trausti manna til fjölmiðla?

Í Bretlandi hefur stjórn BBC áhyggjur ef sjónarhorn ríkisútvarpsins er á skjön við viðhorf almennings. Þá er varað við einsleitni í skoðunum í fjölmennum starfsmannahópi á sama vinnustað þar sem ýtt er undir fordóma í samtölum í stað þess að sækja út fyrir hinn einsleita hóp. 

Hér krefst forstjóri ríkisútvarpsins ekki aðeins að menn láti af gagnrýni á stofnun sína heldur einnig að efni annarra fjölmiðla sé honum alfarið að skapi. Skörin færist upp í bekkinn. - Telur hin fjölmenna stjórn ríkisútvarpsins hlutverk sitt að standa innan skjaldborgarinnar í Efstaleiti með útvarpsstjóra eða koma fram fyrir hönd almennings sem borgar brúsann?