11.7.2013 22:41

Fimmtudagur 11. 07. 13

Nokkrar umræður hafa orðið um hóp þingmanna stjórnarflokkanna sem hefur verið falið að vinna tillögur um hagræðingu og aukna hagkvæmni í ríkisbúskapnum. Nokkrir áratugir eru síðan gripið var til þess ráðs að fela þingmönnum verkefni af þessu tagi. Úrræðið er tvíbent. Það kann að draga úr markvissu starfi undir forystu ráðherra og innan ráðuneyta um að ná settum markmiðum í ríkisfjármálum. Þessi skipan veldur hættu á að þeir sem best þekkja til innviða stjórnkerfisins setjist með hendur í skaut og bíði tillagna frá hópnum sem óvíst er að verði framkvæmanlegar.

Í Stöð 2 var rætt um störf hópsins við Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og hann spurður hvort ekki blasti við að fækka þyrfti ríkisstarfsmönnum ætluðu menn að spara myndarlega hjá ríkissjóði þar sem launakostnaður væri stærsti útgjaldaliður ríkisstofnana. Ráðherrann sagði að ríkisstarfsmönnum kynni að fækka „til langs tíma“ með sameiningu stofnana en það væri „ekki gert ráð fyrir verulegum uppsögnum ríkisstarfsmanna“ enda væri „hagkerfið viðkvæmt fyrir slíku“.

Forsætisráðherra vísaði til aðgerða í „mörgum Evrópulöndum að undanförnu“ þar sem farið hefði verið „í harðan niðurskurð“ þá hefði kostnaður lent á ríkinu annars staðar og því væri þetta „meira spurning um langtímaáhrif“.

Ákveðið var að alþingi kæmi síðar í haust en ella hefði verið að ósk ríkisstjórnarinnar til að hún fengi rýmri tíma til að undirbúa fjárlög. Af orðum forsætisráðherra er ekki ljóst hvort hagræðingarhópur þingmannanna komi að undirbúningi fjárlaga árið 2014 eða horfi lengra fram á veginn.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra ritaði grein í Morgunblaðið í morgun og sagði 8.600 milljónir króna vanta í heilbrigðiskerfið. Kerfið væri komið að fótum fram. Viðskiptaráð bendir á í dag að meira fé sé varið til að mennta hvern grunnskólanema en nemanda í háskólanámi. Þetta sé óviðunandi. Víða eru brotalamir og því af nógu að taka fyrir þá sem taka að sér að líta á nýjar lausnir í ríkisfjármálum.