30.7.2013 22:45

Þriðjudagur 30. 07. 13

Að loknum sumarleyfum taka stjórnmálaflokkarnir til við að ákveða framboðslista sína fyrir sveitarstjórnakosningarnar vorið 2014. Erfitt er að átta sig hvað helst muni setja svip á kosningabaráttuna. Í Reykjavík hefur markvisst verið unnið að því að þurrka stjórnmálaátök út í borgarstjórn og erfitt að sjá um hvað verður tekist bæði innan flokka og milli flokka í tilefni af kosningunum. Þessi þróun er ekki til þess fallin að vekja áhuga almennings á stjórn sveitarstjórna. Sé allt sami grautur í sömu skál skiptir engu hver er kosinn.

Dramað í kringum REI-málið haustið 2007 skyldi eftir sig sár hjá öllum. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sem stöðvuðu framgang málsins eiga lof skilið fyrir það en þeir sátu undir hörðum árásum og enn þann dag í dag má finna einstaklinga, meðal annars innan Sjálfstæðisflokksins, sem umturnast þegar vikið er því hve illa og hneykslanlega var staðið að stjórn Orkuveitu Reykjavíkur þegar hún var leidd út í REI-foraðið. Vinstri flokkunum er ekki ljúft að um málið sé rætt.