3.7.2013 22:41

Miðvikudagur 03. 07. 13

Í dag ræddi ég við Birgi Ármannsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins og formann utanríkismálanefndar alþingis, í þætti mínum á ÍNN. Við ræddum um sumarþingið, ákvörðunina um að halda áfram endurskoðun stjórnarskrárinnar í nýjum farvegi og stöðuna í ESB-málinu. Birgir er þeirrar skoðunar að alþingi eigi að samþykkja nýja ályktun um afstöðuna til ESB. Hann segir óráðlegt að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-viðræður samhliða sveitarstjórnakosningum. Það falli alls ekki saman og raunar sé ekki lofað neinu um þjóðaratkvæðagreiðslu í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, þar segi hins vegar að ekki verði haldið áfram að ræða við ESB án þess að það sé samþykkt af þjóðinni.

Næst má sjá samtal okkar Birgis á miðnætti og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.

Ég man vel eftir kosningabaráttunni 2003 þegar framsóknarmenn lögðu höfuðáherslu á 90% húsnæðislán. Eftir kosningarnar gerðu vinstri flokkarnir Halldóri Ásgrímssyni, formanni Framsóknarflokksins, tilboð um stjórnarsamstarf undir forsæti hans. Niðurstaðan varð þó að Davíð Oddsson og Halldór sömdu um framhald á samstarfi sjálfstæðismanna og framsóknarmanna enda yrði Halldór forsætisráðherra síðustu tvö ár kjörtímabilsins.

Þessi breyting á húsnæðislánum var okkur sjálfstæðismönnum ekki að skapi, án hennar hefðu framsóknarmenn hins vegar ekki sest í ríkisstjórn með okkur. Öll gagnrýni okkar var túlkuð á hinn versta veg af þingmönnum VG og Samfylkingarinnar.

Ávallt hafa flokkar til vinstri við Sjálfstæðisflokkinn lagt áherslu á að hann ætti ekki ráðherra félagsmála en húsnæðismál eru á hans könnu. Það er pólitísk goðsögn að sjálfstæðismönnum sé ekki að treysta í þessum málaflokki og öll gagnrýnisorð af okkar hálfu um opinbera stjórn húsnæðismála eru talin til sannindamerkja um nýfrjálshyggju. Enginn hefur staðið betri vörð um þessa goðsögn í meira en 30 ár en sjálf Jóhanna Sigurðardóttir, henni voru húsnæðismálin og lánakerfi vegna þeirra jafnvel kærari en jafnréttismálin.

Að reyna að klína óráðsíu og klíkustjórn á vettvangi Íbúðalánasjóðs á sjálfstæðismenn er pólitískt ofstæki af versta tagi.