27.7.2013 23:20

Laugardagur 27. 07. 13

Eiður Guðnason var á sínum tíma fréttamaður ríkissjónvarpsins, síðan alþingismaður, ráðherra og sendiherra. Hann heldur úti vefsíðu með fjölmiðlagagnrýni og segir þar í dag:

„Það er til lítils að beina spurningum til Ríkisútvarpsins. Stjórnendur þar telja óþarft að svara slíku. Stofnunin skuldi almenningi ekki neinar skýringar í sambandi við framkvæmd dagskrár í útvarpi og sjónvarpi. Okkur kemur það ekki við.“

Eiður birtir þetta sama dag og sagt er frá því í Morgunblaðinu að ríkisútvarpið stefni á að halda opið útvarpsþing næstkomandi vetur, verði þingið opið almenningi og auglýst þegar nær dregur. Af orðum Páls Magnússonar útvarpsstjóra má ráða að dagsetning þingsins miðist við komu erlendra gesta til þess „allskonar aðilar verði fengnir til að vera með framlög, innlegg og erindi á þinginu varðandi alla þætti í starfi og stefnu Ríkisútvarpsins,“ segir í frétt Morgunblaðsins.

Fréttina og viðbrögð útvarpsstjóra má rekja til þess að Óli Björn Kárason vakti í grein í Morgunblaðinu miðvikudaginn 24. júlí máls á ákvæði í þjónustusamningi ráðuneytis og ríkisútvarps frá 2011 þar sem stjórnendur útvarpsins eru skyldaðir til að efna árlega til opins útvarpsþings.

Í viðtalinu við Morgunblaðið hafði Páll Magnússon enga haldbæra skýringu á hvers vegna útvarpsing var ekki haldið árið 2012. „Það er svo sem engin ástæða fyrir því önnur en sú að það var aðeins að bögglast fyrir okkur formið á þinginu, þ.e. hvernig við ættum að hafa þetta, hverja ætti að boða til þess og svoleiðis,“ segir útvarpsstjóri. Nú hefur ríkisútvarpið náð tökum á því að halda útvarpsþing – tímasetningin ræðst af komu erlendra gesta!

Hvernig halda menn að fréttastofa ríkisútvarpsins tæki á máli af þessu tagi ef um væri að ræða aðra opinbera stofnun? Stofnun sem kynni ekki að halda ársfund?