31.7.2013 21:50

Miðvikudagur 31. 07. 13

Í dag ræddi ég við Jón Ásbergsson, forstjóra Íslandsstofu, í þætti mínum á ÍNN. Næst má sjá þáttinn klukkan 22.00 í kvöld  og síðan á tveggja tíma fresti til 18.00 á morgun.

Stefán Ólafsson prófessor skipti um gír þegar dró að kjördegi og tók að gera hosur sínar grænar fyrir Framsóknarflokknum í stað þess að mæra Samfylkinguna, Að kosningum loknum uppskar hann traust Eyglóar Harðardóttur, félagsmálaráðherra úr Framsóknarflokknum, og var endurskipaður formaður stjórnar Tryggingastofnunar ríkisins.

Stefán hamrar á að hann sé ekki í Samfylkingunni – hvað sem því líður snýst hann harkalega gegn Sjálfstæðisflokknum og segir í nýjasta bloggi sínu (31. júlí):

„Frjálshyggjumenn í Sjálfstæðisflokknum eru nú á dögum helstu öfgamennirnir í íslenskum stjórnmálum. Fyrir margt löngu mátti segja það um þá sem voru lengst til vinstri, sósíalista og kommúnista. […]

Framsóknarmenn verða að passa sig á því að láta ekki Sjálfstæðismenn draga sig ofan í þetta fen [að normalísera hægri öfgana í bandarískum stjórnmálum inn í íslensk stjórnmál eins og Stefán orðar það] í stjórnarsamstarfinu. Það er mikilsvert að viðhalda norrænu samfélagsgerðinni hér á Íslandi áfram. […]

Framsókn hefur mikilvægu sögulegu hlutverki að gegna. Hún þarf að vera mótvægi gegn öfgafrjálshyggjunni í Sjálfstæðisflokknum og viðhalda og endurnýja norræna velferðarkerfið á Íslandi.“

Ástæða er til að spyrja hvaða erindi sjálfstæðismenn telja sig í eiga í samstarf við stjórnmálaflokk sem treystir manni með slíka pólitíska dómgreind til að sitja í formennsku Tryggingastofnunar ríkisins. Er prófessorinn að sinna „mikilvægu sögulegu hlutverki“ og fórna sér gegn „öfgafrjálshyggjunni“ með því að taka að sér þessa formennsku? Hefur Stefán Ólafsson efni á að saka aðra um öfga?