8.7.2013 22:05

Mánudagur 08. 07. 13

Franska matvælaeftirlitið varar fólk við að borða fisk oftar en tvisvar í viku vegna mengunar í sjó og ferskvatni, sterkust er viðvörunin vegna ferskvatnsfiska. Þetta er alvarleg viðvörun og má velta fyrir sér hvaða áhrif hún hefur í öðrum löndum. Innan Evrópusambandsins eru menn mjög á varðbergi vegna matvæla og öryggis við neyslu þeirra eftir svik á liðnum vetri þar sem hrossakjöt var notað í fullunnum vörum sem áttu að geyma nautakjöt.

Eva Hauksdóttir sem brá sér í gervi nornar í tilefni af bankahruninu og fór með bölbænir á blettinum fyrir framan Stjórnarráðshúsið hefur farið mikinn og heimtað að fá að vita hvað Geir Jón Þórisson, fyrrv. yfirlögregluþjónn, skrifaði um sig í skýrslu sem hann samdi fyrir embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu vegna atburðanna veturinn 2008 til 2009 og afskipta lögreglunnar. Úrskurðarnefnd upplýsingamála heimilaði Evu að sjá það sem stendur um hana í skýrslu Geir Jóns.

Eftirminnileg er för þeirra Geir Jóns og Evu upp Arnarhól að húsi Seðlabanka Íslands þar sem Eva vildi fá að hitta Davíð Oddsson seðlabankastjóra og fylgdi Geir Jón henni á fund hans. Óljóst er hvort Geir Jón sat fundinn en ólíklegt er að hann hafi gert það og því sé ekki skýrt frá efni hans í skýrslunni góðu.

Hvernig væri að Eva Hauksdóttir hætti að krefjast upplýsinga um sjálfa sig af öðrum og segði frá því hvað gerðist innan dyra í húsi seðlabankans þegar hún fór þangað á fund? Hvert var erindið? Hvernig var henni tekið? Hafði hún erindi sem erfiði?

Upplýsingamiðlun af þessu tagi færi Evu betur en að sitja við að skrifa skammarbréf um úrskurðarnefndina sem kom þó til móts við óskir hennar.