15.7.2013 22:40

Mánudagur 15. o7. 13

Í sjónvarpinu í kvöld var sýnd fróðleg heimildarmynd um The New York Times og baráttu blaðsins fyrir tilveru sinni á tíma rafrænnar miðlunar. Í lok þáttarins var sagt að ekki væri unnt að nálgast efni á vefsíðu blaðsins án þess að greiða fyrir aðganginn. Þetta er ekki rétt. Blaðið reyndi þetta um tíma varðandi hluta efnis en hvarf frá því. Nú fikrar það sig mjúklega til sömu áttar. Í þættinum kom einnig fram að tilraun blaðsins til gjaldtöku á sínum tíma var illa tekið.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði í þjóðhátíðarræðu sinni að ESB þyrfti að „sanna sig¨ gagnvart Íslendingum. Sigmundur Davíð er í dag í Brussel og þá kýs Maria Damanaki  sjávarútvegsstjóri að tilkynna áform um refsiaðgerðir gegn Íslendingum vegna makrílveiðanna. Sigmundur Davíð hittir ESB-toppana á morgun, skyldu þeir „sanna sig“.