4.7.2013 23:40

Fimmtudagur 04. 07. 13

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, lítur á setu sína á alþingi sem tæki til að auglýsa sig á alþjóðavettvangi. Framganga hennar þjónar ekki öðru en að draga athygli að henni sjálfri. Þegar bandarískur saksóknari vildi kynna sér Twitter-samskipti hennar gerði hún það að umtalsefni á erlendum þingmannavettvangi og krafðist alþjóðlegrar friðhelgi í krafti þingmennsku sinnar. Það mál varð að engu þegar frá leið og hið sama má segja um fullyrðingar Birgittu um að hún yrði handtekin færi hún til Bandaríkjanna. Það hefur reynst tóm vitleysa.

Nýjasta auglýsingamennska Birgittu er að skálda eitthvað um Ban Ki-moon, aðalritara Sameinuðu þjóðanna, og uppljóstrarann Edward Snowden eftir að utanríkismálanefnd alþingis tók á móti aðalritaranum á fundi þriðjudaginn 2. júlí. Í dag segir hún við vefsíðuna visir.is að Ban Ki-moon sé „ömurlegur“ og á vefsíðunni stendur: „Ban Ki-moon er lélegur aðalframkvæmdastjóri miðað við Kofi Annan að mati Birgittu og hún segir hann ekki hafa farið fögrum orðum um forvera sinn í embættinu á fundinum.“

Þetta er skrýtilegt tal sem stafar af því að Ban Ki-moon tók ekki undir eitthvað sem Birgitta sagði.

Á síðasta þingi sátu Birgitta og Þór Saari saman í þingflokki Hreyfingarinnar. Þá bar ekki eins mikið á skammarlegri þingframkomu Birgittu og nú af því að framganga Þórs var enn verri en hennar. Nú hefur verið upplýst að Þór hafi afvegaleitt rannsóknarnefnd vegna Íbúðalánasjóðs með ósannindum um látinn mann, nefndin gekk í vatnið og trúði honum. Tveir þingmenn segja Birgittu greina rangt frá fundi utanríkismálanefndarinnar. Ósannindi stjórnmálamanna gera þá endanlega marklausa.