5.10.2005 22:08

Miðvikudagur, 05. 10. 05.

Merkilegt að sjá það gert að jafnmiklu umræðuefni og raun ber vitni, að Hlynur Hallsson, varaþingmaður vinstri/grænna, skyldi flytja ræðu í þingi í gærkvöldi án þess að hafa hálsbindi eða slaufu. Það virtist enginn fjölmiðill hafa áhuga á því, hvað Hlynur hafði fram að færa í umræðunum, heldur hvernig hann var klæddur. Úr því að forseti þingsins leyfði Hlyni að klæðast á þennan hátt, hefur ísinn verið brotinn fyrir okkur karlana í þinginu - eða hvað? Ég minnist þess að Spánverjinn Martinez, sem kjörinn var forseti þings Evrópuráðsins, gekk aldrei með hálstau en var hins vegar oft í skyrtum með fallegum hnöppum.

Sú spurning vaknar hjá þingmönnum, hvort þeir eigi að geta verið með fartölvur í þingsalnum. Sem betur fer hefur ekki verið farið inn á þá braut, bæði vegna þess að það mundi spilla öllu andrúmslofti í salnum fyrir utan að borð hvers þingmanns er svo lítið, að það rúmar varla tölvu. Fartölvur eru leyfðar í fundarsal borgarstjórnar og finnst mér ekki fara vel á því, skrýtnast þykir mér að sjá borgarfulltrúa bera fartölvu upp í ræðustól og lesa af henni ræðu sína. Klæðaburður karla í borgarstjórn er frjálslegri en í þinginu, þótt almennt sæki karlar fundi þar í jakkafötum með hálsbindi.

Ég átta mig ekki alveg á gagnrýni frjálslyndra á þá tilhögun við kjör forseta þingsins, að ekki sé unnt að segja nei, ef aðeins einn er í kjöri - annað hvort greiðir maður þessum eina atkvæði eða skilar auðu - er einhver annar kostur? Ef dreift væri atkvæðaseðlum og menn ættu að skrifa nafn þess, sem þeir ætluðu að kjósa, myndu frjálslyndir þá skrifa nei?