16.10.2005 21:52

Sunnudagur, 16. 10. 05.

Fór á landsfundinn fyrir hádegi, hlýddi á umræður og kaus í miðstjórn, áður en ég hélt inn á Stöð 2, þar sem ég ræddi við Egil Helgason um Baugsmiðlana, Baugsmálið og landsfundinn. Vona ég að samtal okkar hafi verið líflegt en á undan mér var meðal annarra Jakob Frímann Magnússon, málsvari Samfylkingarinnar, sem réðst að Davíð Oddssyni af ótrúlegri heift og á þeim nótum, sem við eigum til allrar hamingju ekki að venjast í stjórnmálaumræðum hér. Ef Jakob Frímann og Karl Th. Birgisson eru þeir málsvarar Sanfylkingarinnar, sem þykja helst samboðnir boðskap flokksins undir forystu nýs formanns er markið ekki sett hátt eða gerð mikil tilraun til stjórnmálaumræðna á málefnalegum grunni.

Síðdegis hylltum við landsfundarmenn nýjan formann, Geir H. Haarde, og varaformann, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, afgreiddum allar tillögur og ályktanir fundarins og gengum síðan sátt og glöð af glæsilegum fundi klukkan rúmlega 18.00.

Fundurinn var einstaklega vel skipulagður og vel að okkur fundarmönnum búið. Er það í sjálfu sér þrekvirki að halda þannig á málum, að í tæka tíð séu allar tillögur til prentaðar í 12 til 1300 eintökum og þeim dreift á öll borð í hinum stóra sal. Þá eru kosningar einnig þannig skipulagðar, að fljótlegt er fyrir þennan stóra hóp fólks að greiða atkvæði.