Föstudagur, 21. 10. 05.
Setti í dag Sigurð Tómas Magnússon ríkissaksóknara í Baugsmálinu svonefnda. Ég tel mikinn feng að því að hann skuli hafa tekið þetta erfiða verkefni að sér, en Sigurður Tómas hefur undanfarin ár verið formaður Dómstólaráðs, en segir nú af sér sem héraðsdómari, svo að hann geti tekið þetta verkefni að sér. Kynnti ég ákvörðun mína fyrst fyrir ríkisstjórninni á fundi hennar í morgun.
Við þetta val á manni vaknaði sú spurning, hvort setja mætti héraðsdómara í starfið, en nefnd um dómarastörf, sem starfar lögum samkvæmt, taldi það óheimilt, þar sem viðkomandi mundi stunda málflutning. Sjálfsagt er að hafa strangar reglur um auka- eða íhlupastörf dómara og raunar spurning, hvort þeir geta tekið að sér setu í nefndum, þótt þær starfi fyrir dómsmálaráðuneytið.
Af viðbrögðum í fréttum og annars staðar dreg þá ályktun, að enginn finni að því, að Sigurður Tómas leiði þetta mál til lykta sem ákærandi, þótt einhverjir séu enn að agnúast út í að ég skuli hafa valið hann og sett til starfans. Mig undrar að það skuli gert, án þess að færð séu fyrir því nokkur rök eða bent á það af nákvæmni, hvað veldur þessu meinta vanhæfi mínu.
Síðdegis ávarpaði ég hóp starfsmanna stofnana dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, sem voru á kynningarfundi vegna nýskipunar í tölvu- og fjarskiptamálum ráðuneytisins en mikið þróunar og nýsköpunarstarf hefur verið unnið á því sviði í um það bil eitt ár.