Sunnudagur, 23. 10. 05.
Það var sagt frá því í fréttum, að aðeins hefði munað tveimur atkvæðum á landsfundi vinstri/grænna, að samþykkt yrði að leggja niður þjóðkirkjuna. Mátti heyra á Steingrími J. Sigfússyni, formanni flokksins, að honum var brugðið vegna þessa litla munar. Það kom mér hins vegar á óvart, að heyra tölurnar, því að þær sýndu, að fundarmenn voru nákvæmæleg 100 (49 með 51 á móti) en Steingrímur J. hefur talað um fundinn eins og um meiriháttar mannamót væri að ræða, en fjöldinn nær ekki einu sinni þeim fjölda, sem tekur þátt í störfum stórrar nefndar á landsfundi okkar sjálfstæðismanna.
Ég átta mig ekki alveg á því norræna módeli, sem Steingrímur J. segist vera að boða með tali sínu um, að stjórnarandstöðuflokkarnir hér taki höndum saman gegn ríkisstjórninni um myndi það, sem hann kallar „velferðarstjórn“ og lætur eins og hún sé á næsta leiti, ef menn fari eftir þessu norræna módeli og heiti því nú, að mynda slíka stjórn, falli sú, sem nú situr. Samstarf í ríkisstjórn byggist að sjálfsögðu ekki á neinu norrænu módeli heldur því, hvort flokkar eru sammála um málefni og hafa nægan styrk til að fylgja þeim eftir með meirihluta á þingi.