13.10.2005 21:30

Fimmtudagur, 13. 10. 05.

Hélt af stað frá Lúxemborg með KLM til Amsterdam klukkan 11.40, var um klukkutstund á Schipol-flugvelli, áður en Icelandair vélin hélt af stað klukkan 14.00, en sá tími dugði ekki til að koma töskunni á milli véla. Lenti í Keflavík 15.20 en á leiðinni yfir hafið var óvenjumikil ókyrrð.

Við Rut vorum komin í Laugardalshöllina rúmlega 17.00 til að sitja setningarfund 36. landsfundar Sjálfstæðisflokksins. Davíð Oddsson flutti gagnmerka setningarræðu, þar sem hann drap á það, sem honum þótti merkast á starfsferli ríkisstjórna sinna síðan 1991 auk þess að víkja að málefnum líðandi stundar og þar á meðal Baugsmálinu. Þá sagði Davíð:

„Því er enn dapurlegra að ekki aðeins formaður Samfylkingarinnar, heldur einnig sumir þingmenn hennar, eins og ömurlegt uppistand í þinginu síðastliðinn þriðjudag sýndi, virðast naumast líta lengur á Samfylkinguna sem flokk en fremur sem tiltölulega léttvægt dótturfélag auðhrings. Við sjálfstæðismenn getum því ekki vænst stuðnings úr þessari átt. En það þarf ekki að koma á óvart. Samfylkingin hefur gefist upp á því að hafa nokkra sannfæringu eða stefnu. Í staðinn leggur sá flokkur nú áherslu á svo kölluð umræðustjórnmál. Og þegar komið er í innihaldslaus umræðustjórnmál þá eru dylgjurnar á næsta Leiti. Hún Gróa sem þar bjó bað menn þess lengstra orða að bera sig ekki fyrir því sem hún hafði eftir ónefndum ólygnum manni. Nú geta Gróurnar ekki lengur vitnað í ónefndan, því þá halda húsbændurnir að það sé ég.“

Hið „ömurlega uppistand“, sem Davíð vísar þarna til, varð þegar Lúðvík Bergvinsson og Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmenn Samfylkingarinnar, hófu árásir á mig vegna þess, sem sagði hér í dagbókinni sl. mánudag. Framganga þeirra hafði þau áhrif á Davíð, að honum þótti þeir virðast líta á flokk sinn sem „tiltölulega léttvægt dótturfélag auðhrings“.

Í Kastljósi strax að lokinni ræðunni kusu þau Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Karl Th. Birgisson, talsmenn Samfylkingarinnar, að oftúlka þessi orð Davíðs í því skyni að afla sér samúðar með vísan til þess, að hann hefði farið offari og lýst Samfylkingunni sem léttvægu dótturfélagi auðhrings. Hann var hins vegar að draga ályktun af framgöngu tveggja þingmanna Samfylkingarinnar, eins og lýst er í ræðunni.

Síðastliðinn þriðjudag sendi blaðamaður Fréttablaðsins mér spurningu í tölvupósti varðandi ummæli Kristins H. Gunnarssonar vegna orðanna í dagbókinni minni. Ég svaraði þessari spurningu frá Kasrup-flugvelli, en svarið er ekki birt í blaðinu fyrr en í dag og er þá úr sér gengið, því að síðan það var gefið hefur Kristinn H. Gunnarsson dregið gagnrýni á mig vegna þessa til baka, þar sem ég hafi skýrt mál mitt.

Í ræðu sinni gat Davíð þess, að í nýju tímariti Þjóðmálum væri góð úttekt á lélegri fjármálastjórn R-listans. Þetta nýja tímarit sá einmitt dagsins ljós í dag, en ritstjóri og útgefandi þess er Jakob F. Ásgeirsson. Ég hvet alla áhugamenn um þjóðmál að kynna sér þetta rit og veita því brautargengi.