26.10.2005 22:41

Miðvikudagur, 26. 10. 05.

Undarlegt að sjá Sigríði Dögg Auðunsdóttur, helsta pólitíska blaðamann Fréttablaðsins, skrifa um blaðið eins og stjórnmálaflokk í Bakþanka blaðsins í dag. Hún leggur að jöfnu gagnrýni sjálfstæðismanna á fréttaflutning Fréttablaðsins af landsfundarræðu Davíðs Oddsonar og gagnrýni Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, varaformanns Sjálfstæðisflokksins, á flokksfundarræðu Steingríms J. Sigfússonar. Telur stjörnublaðamaður Baugsmiðlanna engan mun á því, hvernig fjölmiðlar segja fréttir og því, hvernig stjórnmálamenn lýsa skoðunum andstæðinga sinna? Er Sigríður Dögg með þessu að réttlæta lélegan fréttaflutning Fréttablaðsins á þeirri forsendu, að hann sé sambærilegur við það og þegar stjórnmálamaður gagnrýnir sjónarmið andstæðings síns? Það er dapurlegt fyrir umsjónarmenn Kastljóss, að Sigríður Dögg telur sig hafa rök til að draga þá í sama dilk og Fréttablaðið.