31.10.2005 22:30

Mánudagur, 31. 10. 05.

Samkvæmt Gallup-könnun, sem birt var í dag, fengi Sjálfstæðisflokkurinn 57% eða hreinan meirihluta í Reykjavík, ef kosið væri til borgarstjórnar nú. Samfylkingin fengi 25%, vinstri/grænir 12% eða samtals eru þessir rauð/grænu flokkar 37%. Framsókn fengi 4% og frjálslyndir 2%. Þetta er glæsileg niðurstaða og sýnir, að hvað sem líður eðlilegri baráttu einstakra frambjóðenda í prófkjörinu, dregur það síður en svo úr fylgi flokksins.

Ef kosið yrði til alþingis nú fengi Sjálfstæðisflokkurinn rúm 41%, Safylking tæp 28% og heldur áfram að lækka eins og hún hefur gert jafnt og þétt frá formannskjöri Ingibjargar Sólrúnar, vinstri/grænir fengju tæplega 17%, Framsóknarflokkurinn ríflega 10% og frjálslyndir tæplega 4%.

Sjálfstæðismenn geta vissulega vel við þetta unað, styrkur okkar er mikill og ótvíræður. Hvað skyldi Ingibjörg Sólrún gera næst til að auka fylgið? Hún hefur spilað út nýrri skattastefnu upp á sitt eindæmi, án þess að stuðningurinn vaxi. Nú síðast kynnti hún nýja sjávarútvegsstefnu upp á sitt eindæmi. Hvað gerir hún næst? Leggur hún til að Össur verði formaður að nýju?