Fimmtudagur, 27. 10. 05.
Það er forvitnilegt að fylgjast með fréttunum af varnarmálaviðræðunum við Bandaríkjastjórn og mér heyrðist Michael Corgan, prófessor í Boston, vera með skynsamlegustu vangavelturnar í sjónvarpsfréttum í kvöld. Hann benti réttilega á, að í Washington eru menn að sjálfsögðu með hugann við annað um þessar mundir, þegar rætt er um herinn og vopnabúnað en Ísland. Bandarísku embættismennirnir höfðu líklega ekki haft nægan tíma til heimavinnu eða ekki fengið nægilega skýr fyrirmæli, áður en íslenska sendinefndin átti að hitta þá í síðustu viku.
Ég var undrandi á að heyra þá útleggingu í Stöð 2 í gærkvöldi, að það væri til marks um, að málstaður bandarískra varna á Íslandi nyti ekki lengur stuðnings í Washington, að forysta í viðræðunum væri komin í hendur þjóðaröryggisráðsins, sem starfar undir stjórn Bandaríkjaforseta. Það sýndi mér aðeins, að fréttamaðurinn þekkir ekkert til mála og dró því ranga ályktun eða hann naut leiðsagnar einhvers, sem vildi leiða hann á villigötur.
Það er ekki aðeins, að Bandaríkjastjórn er með fangið fullt af vandamálum, þegar rætt er um bandarískan herafla og framtíð hans, heldur er George W. Bush forseti að glíma við mestu erfiðleika á forsetaferli sínum. Hann losnaði við eitt vandamál í dag, þegar Harriet Miers lýsti yfir því, að hún vildi ekki láta á það reyna, hvort tilnefningin á henni í hæstarétt nyti stuðnings á Bandaríkjaþingi og dró sig í hlé.
Á morgun er búist við því, að Patrick Fitzgerald, sérlegur saksóknari, skýri frá því, hvort háttsettir og nánir samstarfsmenn Bush hafi gerts brotlegir við lög vegna uppljóstrana um starfsmann leyniþjónustunnar, CIA.