Föstudagur, 14. 10. 05.
Ég er að lesa endurminningabókina efti Bon Dylan, sem heitir Chronicle I og gefur nafnið til kynna, að hann eigi eftir að skrifa fleiri bækur um eigið líf, þótt bókin sé ekki ævisaga í þess orðs merkingu. Bob Dylan er þremur árum eldri en ég og á sjöunda áratugnum sló hann í gegn og varð einskonar tákngervingur mótmælahreyfinga, sem nú eru kenndar við '68-kynslóðina og Víetnamstríðið. Í bókinni, sem er mikils metin víða um heim, segir Bob Dylan, að hann hafi aldrei litið á sjálfan sig sem málsvara neins eða átrúnaðargoð. Hann hafi í raun verið á flótta með sig og fjölskylduna undan eigin frægð og þegar fólk krafðist þess, að hann yrði tákngervingur andstöðunnar við stjórnvöld. Ég er sammála þeim, sem telja bókina meðal hinna bestu á útgáfuári hennar.
Mér kemur afstaða Bobs Dylans í hug, þegar ég les ýmislegt af því, sem Baugsmiðlarnir hafa verið að skrifa vegna landsfundar okkar sjálfstæðismanna. Skrifin eru spegill sálar þess, sem skrifar, en ekki hins, sem les og kemur oft af fjöllum. Bob Dylan skildi ekki, hvers vegna verið var að reyna að gera hann að málsvara, án þess að hann teldi sig hafa unnið til þess. Hið sama á við okkur, skotspæni Baugsmiðlaeineltis. Við undrumst, að það eigi rétt á sér, hvort sem reynt er að þagga niður í okkur eða hindra að við vinnum þau verk, sem okkur ber.
Öll þessi skrif Baugsmiðlanna eru dæmigerð fyrir þá, sem hafa rekist á sker og bjargast laskaðir af högginu.
Landsfundurinn gekk vel í dag. Ég hlustaði á hluta umræðna um stjórnmálaályktunina en þar var mikið rætt um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Kjartan Gunnarsson, framkvæmdastjóri flokksins, flutti góða ræðu um flokksstarfið. Hann upplýsti meðal annar, að þrátt fyrir viðgerð á Valhöll yrði flokkurinn skuldlaus um næstu áramót.
Davíð bað fundarmenn að rísa úr sætum og klappa fyrir Kjartani og 25 ára framkvæmdastjórn hans. Gekk það eftir með glæsibrag.
Í hádeginu hittust sjálfstæðismenn í Reykjavík og þótti mér vænt um, að þar hvatti Sigurður Kári Kristjánsson alþingismaður til þess, að menn gerðust áskrifendur að tímaritinu Þjóðmálum og tek ég undir áskorun hans
Klukkan 14. 15 hófst spurningatími ráðherra og stóð hann til tæplega 17.00.
Ég var klukkan rúmlega 18.00 í flugskýli Landhelgisgæslu Íslands til að fagna 50 ára afmæli flugdeildar hennar. Var vel að þeim fagnaði staðið og sérstaklega merkilegt að sjá myndband með sögu fluggæslunnar. Megi þeim vel vegna um ókomin ár!
Síðan leit ég inn í glæsilegt hóf, sem Gísli Marteinn Baldursson hélt fyrir landsfundarfulltrúa úr Reykjavík til að fagna fundinum og minna á framboð sitt í prófkjöri til borgarstjórnar.