Miðvikudagur, 12. 10. 05.
Haustveðrið í Lúxemborg er mildara en það var, þegar ég hélt að heiman í gær. Haustlitirnir eru ekki síður fallegir hér en hjá okkur og þetta er ekki síðri tími til að ferðast um þessar slóðir en á sumrin í meiri hita og með fleiri ferðamönnum.
Það er verið að byggja mikið á flugvellinum í Lúxemborg ekki síður en annars staðar í heiminum. Hér er velmegun jafnvel meiri en á Íslandi og stórhýsunum í þeim hluta Lúxemborgar, þar sem Evrópusambandið hefur aðsetur, fjölgar stöðugt. Nú er verið að leggja lokahönd á risavaxinn fundarsal ESB-þingsins, en það kemur líklega stundum saman hérna, þótt fundarstaðir þess séu í Strassborg og Brussel.
Schengen-ráðherrafundurinn var hins vegar haldinn í einhvers konar skemmu, sem hefur verið innréttuð til fundarhalda en er líklega notuð á milli funda sem sýningarskáli. Að halda fundinn hér í Lúxemborg er í samræmi við þá reglu ESB að flytja ráðherrafundi á milli Brussel og Lúxemborgar, en það tekur um tvo og hálfan tíma að aka hingað frá Brussel, lendi menn ekki í umferðarteppu. Flugtíminn frá Kaupmannahöfn en einn tími og fjörutíu mínútur og eru þrjár ferðir á dag á vegum Luxair og mér skilst að SAS sé einnig að hefja flug hingað.
Frá fornu fari finnst mér alltaf vinalegt að koma á flugvöllinn í Lúxemborg, það er frá þeim tíma, þegar hann var helsti tengipunktur okkar Íslendinga til Mið-Evrópu. Hér eru höfuðstöðvar Cargolux, sem er eitt öflugasta vöruflutningaflugfélag í heimi og býr við mikla velgengni.
Fyrir hádegi efndi ég til fundar með fulltrúa breska innanríkisráðuneytisins, en Bretar fara nú með forsæti í Evrópusambandinu (ESB) og ræddum við málefni á dagskrá Schengen-ráðherrafundarins síðdegis.
Schengen-samningurinn gerir ráð fyrir samsettri nefnd (Mixed Committee) þar sem hittast ráðherrar ESB-landanna og nú einnig umsóknaralandanna Rúmeníu og Búlgaríu, og ráðherrar EFTA-landanna Íslands, Noregs og Sviss - alls ráðherrar frá 30 löndum, en ráðherrar á fundinum geta verið fleiri, því að frá mörgum löndum sitja innranríkisráðherra og dómsmálaráðherrar fundina, því að þeir skipta á milli sín málefnum, sem falla undir Schengen-samstarfið.
Schengen-samningurinn gerir ráð fyrir því, að síðari hluta árs sé eitt EFTA-ríkjanna í forsæti á fundum samsettu nefndarinnar og að þessu sinni er það Ísland, sem gegnir þeirri stöðu, þess vegna er ég staddur hér til að stjórna þessum fundi. Þótt fundartíminn sé venjulega ekki langur vegna þess hve vel hefur verið búið um hnúta á vegum embættismanna fyrir fundina eru þeir óhjákvæmilegir til að pólitísk niðurstaða fáist.
Að þessu sinni var rætt um skipti á upplýsingum milli lögreglu aðildarlandanna en áhersla var lögð á það eftir hryðjuverkaárásirnar í London í júlí að ljúka meðferð þess máls fyrir lok þessa árs og eftir fundinn í dag er ljóst, að það verður gert á næsta fundi í byrjun desember, en hann verður í Brussel.
Dóms- og innanríkisráðherrar ESB-ríkjanna höfðu verið á fundi frá því í morgun þar til klukkan 17.00 að ég tók við fundarstjórn af Charles Clarke, innanríkisráðherra Breta. Við vorum ekki nema 30 mínútur að ljúka dagskránni, Þjóðverjar óskuðu eftir því að fresta því að taka afstöðu til álitamála, þar til í desember, enda hefur ekki verið mynduð stjórn þar. Eytt var ýmsum fyrirvörum, sem ríki höfðu, og almennur vilji er til þess að málinu verði lokið á næsta fundi.