Laugardagur, 08. 10. 05.
Sá í netútgáfu Berlingske Tidende að Bítlaávarpið eftir Einar Má Guðmundsson, sem er nýkomið út á dönsku, fær fjórar stjörnur af sex.
Fjölmiðlar hafa sagt frá því, að mannanafnanefnd sagði nýlega af sér. Dómsmálaráðuneytinu barst bréf, þar sem kvartað var undan því, sem talin voru ámælisverð vinnubrögð nefndarinnar. Ráðuneytið beindi því vinsamlega til nefndarinnar, að hún hugaði að málinu í ljósi meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Nefndin gerði það og sagði síðan af sér. Af sumum fréttum mætti ætla, að ráðuneytið hefði talið vinnubrögðin ámælisverð, það er misskilningur. Ráðuneytið vísaði í því efni til bréfs kvartanda.