Sunnudagur 30. 10. 05.
Var fram eftir degi fyrir austan fjall, það var dálítilli skrafrenningur á hálum veginum frá Hvolsvelli vestur fyrir Hellu síðdegis en minnkaði eftir því sem vestar dró og Hellisheiðin var auð.
Danski dómsmálaráðherrann og lögreglan hefur í nógu að snúast þessa dagana, þegar upp hefur komist um hryðjuverkatilburði í tengslum við Danmörku. Enn einu sinni virðist um það að ræða, að þræðirnir teygi sig víða um lönd. Þetta gerist á sama tíma og sendiherrar nokkurra islamskra ríkja í Kaupmannahöfn hafa stofnað til deilna við Anders Fogh Rasmussen forsætisráðherra vegna skopmyndar í dagblaðinu Jyllandsposten, sem sendiherrarnir telja móðgandi fyrir Múhameð spámann.
Að skopmynd verði tilefni milliríkjadeilu er nokkurt nýmæli, en fráleitt er að ætla, að hún geti orðið kveikja að því, að hafist sé handa við undirbúning hryðjuverks.