6.10.2005 21:06

Fimmtudagur, 06. 10. 05.

Fór klukkan 17.00 í gamla Símahúsið við Austurvöll, þar sem Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarfulltrúi var að opna prófkjörsskrifstofu með pomp og pragt og miklum fjölda gesta. Illugi Gunnarsson, aðstoðarmaður Davíðs Oddssonar, og Ásdís Halla Bragadóttir, forstjóri Byko, fluttu ávörp auk frambjóðandans og Ragnar Bjarnason söng með undirleik Þorgeirs Ástvaldssonar á harmóníku.

Ég hef fylgst með Hönnu Birnu, frá því að hún hóf afskipti af stjórnmálum og nú setið með henni í borgarstjórn í rúm þrjú ár, og tel hana vel að því komna að hljóta 2. sætið á framboðslistanum í vor eins og hún sækist eftir - fyrir utan að við Reykvíkingar eignuðumst með því góðan og skeleggan forystumann.