Föstudagur, 07. 10. 05.
Ríkisstjórnin kom saman í Ráðherrabústaðnum í morgun, annan föstudaginn síðan ákveðið var að föstudagsfundir skyldu vera þar.
Við heilbrigðis- og tryggingaráðherra lögðum fram minnisblað um viðbrögð, ef hér yrði svokölluð fuglaflensa, en nú þykir sannað að spánska veikin 1918 hafi verið slík flensa, en þá létust 50 milljónir manna um heim allan. Nýlega sagði sérfræðingur Sameinuðu þjóðanna, að 150 milljónir manna kynnu að látast vegna slíkrar flensu nú á tímum, en strax daginn eftir sagði talsmaður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) að tala látinna gæti orðið 7,5 milljónir manna.
Tillögur um viðbúnað hér á landi eru vel rökstuddar og hógværar. Vandi stjórnvalda hér sem annars staðar er að vinna að undirbúningi nauðsynlegra aðgerða, án þess að viðbúnaðurinn veki ótta meðal almennings og öryggisleysi.
Fréttir bárust um það síðdegis, að þrjú tilvik fuglaflensu hefðu verið greind í Rúmeníu, hvort það er fuglaflensan óttalega eða eitthvert annað afbrigði, kom ekki fram. Eitt er víst, að í þessu efni er allur varinn góður.