11.10.2005 10:43

Þriðjudagur, 11. 10. 05.

Um klukkan 07.30 í morgun hringdi fréttamaður af hljóðvarpi ríkisins í mig og spurði, hvort ég hefði einhverju við það að bæta, sem ég sagði hér á síðunni í gær um dóm hæstaréttar í Baugsmálinu. Ég sagði svo ekki vera.

Eftir ríkisstjórnarfundinn í morgun sátu fréttamenn fyrir mér og lögðu fyrir mig spurningar vegna Baugsmálsins. Þá heyrði ég, að Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður framsóknarmanna, hefði krafist þess, að ég segði af mér vegna orða minna á vefsíðunni. Ég varð undrandi á að heyra þetta. Á síðunni sagði ég ekki annað en almælt tíðindi, enda stendur í sjálfum dómi hæstaréttar, að málinu sé ekki lokið fyrir dómstólum og þar með ekki í réttarkerfinu. Undir lok dóms hæstaréttar segir: „Með þeirri niðurstöðu, sem að framan er getið, standa eftir í máli þessu til efnisúrlausnar ákæruliðir, sem einn eða fleiri varða alla varnaraðila. Lýkur því málinu ekki með dómi þessum gagnvart neinu þeirra.“

Ég hélt út á Keflavíkurflugvöll um klukkan 11.30 til að taka flugvél klukkan 13.15 til Kaupmannahafnar. Á leiðinni í bílnum hlustaði ég á Hallgrím Thorsteinsson á Baugsmiðlinum Talstöðinni, þar sem honum var mikið í mun á að fá álit á orðunum á vefsíðu minni og kanna, hvort þau væru ekki örugglega eitthvað úr takt við það, sem menn mættu segja, það er við hinn pólitíska eða viðskiptalega réttrúnað þessara miðla. Jú, hann fékk Jón Magnússon, verjanda Baugsmiðilsins Fréttablaðsins, til að segja að ég væri klaufi og kjáni! Síðan hringdu nokkrir og tóku undir þá skoðun, að ég hefði líklega verið að gefa fyrirmæli með orðunum á vefsíðu minni! Er líklegt, að dómsmálaráðherra noti dagbók vefsíðu sinnar til að gefa fyrirmæli?

Þar sem ég var að fara til útlanda, gat ég ekki setið þingfund, en mér bárust fregnir af því, að Lúðvík Bergvinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, vildi ræða við mig utan dagskrár um orðin á vefsíðu minni.

Þegar ég kom hingað til Lúxemborgar, þar sem ég sit fund Schengen-ráðherra og stjórna samsettu nefndinni á morgun, sé ég, að Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri/grænna, hefur rokið upp á nef sér á alþingi og sagt samkvæmt visir.com ( Baugsmiðli), að ég hafi „blaðrað á heimasíðunni“ en síðan flúið til útlanda! Hvorugt gerði ég, en í sömu veffærslu á visir.com segir, að þingmenn stjórnarandstöðunnar hafi farið „hamförum í ræðustól á Alþingi í dag vegna skrifa Björns Bjarnasonar á heimasíðu sinni frá í gær þar sem hann sagði réttarkerfið ekki hafa sagt sitt síðasta orð í Baugsmálinu.“