Mánudagur, 24. 10. 05.
Kvennafrídagurinn setti svip sinn á starf í ráðuneytinu, þar sem konur hurfu þaðan um klukkan 14.00 til að taka þátt í göngu og/eða fundi en sagt var að um 50.000 manns hafi verið í miðborginni. Þegar ég ók heim milli 16.00 og 17.00 var bílum lagt á eyjar við Sæbrautina og einnig á austanvert Miklatún og eyjar í Lönguhlíðinni.
Sagt frá því, að nýr forseti hafi verið kjörinn í Póllandi, Lech Kaczynski, en hann á rætur í Samstöðu, þar sem hann barðist gegn ofríki kommúnista með Lech Walesa. Forseti Póllands hefur vald til afskipta af utanríkismálum og Kaczynski er efasemdarmaður um ágæti Evrópusambandsins, hann vill ekki taka upp evruna, auk þess að vera fullur tortryggni í garð Rússa og Þjóðverja hinna stóru nágranna Póllands.
Vaclav Klaus, hægrimaðurinn, forseti Tékklands, er fullur efasemda um Evrópusambandið og gagnrýnir það af miklum þunga. Lech Kaczynski er sama sinnis og báðir vilja þeir náið samstarf við Bandaríkin. Hafi pólskir kjósendur viljað mótmæla þátttöku lands síns í Íraksstríðinu, hefðu þeir ekki kosið Kaczynski.