Mánudagur, 03. 09. 05.
Í dag eru rétt 15 ár síðan Þýskaland sameinaðist, það er 3. október 1990, innan við ári, eftir að múrinn féll. Ég sá fróðlega mynd um aðdraganda sameiningarinnar í DR 2 í kvöld, þar sem Mikhaíl Gorbatsjov, fyrrverandi leiðtogi sovéskra kommúnista, var einskonar fréttamaður og ræddi við Helmut Kohl, þáverandi kanslara Vestur-Þýskalands, Hans Dietrich-Genscher, þáverandi utanríkisráðherra Vestur-Þýskalands, og George Bush, þáverandi forseta Bandaríkjanna, auk þess rætt var við fleiri, sem komu við þessa merku sögu og sýndar myndir frá sögulegum atburðum. Hlutur Kohls í þessu ferli öllu er einstæður og hvernig hann spilaði eftir eyranu og tilfinningu sinni, þegar hann flutti ræður og mótaði leiðina til sameiningar Þýskalands, án þess að ræða það, sem hann sagði fyrirfram við utanríkisráðherra sinn eða bandamenn í Evrópu og Bamdaríkjunum. Kohl sagðisy einnig varla hafa trúað sínum eigin eyrum, þegar hann ræddi við Gorbatsjov í Moskvu síðsumars og hlustaði á Gorbatsjov lýsa yfir því, að Sovétstjórnin myndi ekki andmæla sameiningu Þýskalands.
Vel gerðir sjónvarpsþættir um sögulega atburði úr samtímanum eru alltof sjaldgæfir í íslensku sjónvarpi, hvort sem um er að ræða innlenda eða erlenda atburði. Heimildarþættir almennt um annað en náttúru og dýr virðast ekki eiga upp á pallborð þeirra, sem velja ofan í okkur sjónvarpsefni á innlendu stöðvunum.
Í dag komust utanríkisráðherrar ESB-landanna að niðurstöðu, sem dugði utanríkisráðherra Tyrklands til að halda til fundar við þá í því skyni að hefja formlega göngu Tyrkja inn í ESB - en talið er að aðildarviðræðurnar taki 10 ár.
Skýrt var frá því fréttum hljóðvarps ríkisins, að sl. fimmtudag hefði Hallgrímur Geirsson, framkvæmdastjóri Árvakurs, farið í skrifstofu Baugsfyrirtækisins Haga til að ræða um auglýsingar í Morgunblaðinu við Finn Árnason, forstjóra Haga.