4.10.2005 22:36

Þriðjudagur, 04. 10. 05.

Borgarstjórn kom saman klukkan 14.00 og var það aðgerðalítill fundur, sérkennilegast þótti mér, að Árni Þór Sigurðsson, oddviti vinstri/grænna, flutti ræðu um alþjóðasamninga en enginn annar tók til máls um þá. Björk Vilhelmsdóttir einnig vinstri/græn talaði um velferðarmál en þær umræður snerust mest um andmæli stéttarfélags félagsráðgjafa við ráðningum starfsfólks á hinar nýju þjónustumiðstöðvar og vakti Guðrún Ebba Ólafsdóttir Sjálfstæðisflokki athygli á því, að bréf félagsráðgjafanna var skrifað 29. júní, 12. júlí lá fyrir álit embættismann borgarinnar á bréfinu en því var ekki svarað fyrr en 3. október eftir ítrekun frá félagsráðgjöfunum. Taldi Guðrún Ebba þetta ekki til marks um góða stjórnsýslu eða mikla virðingu borgarstjóra fyrir þessu félagi. Helga Jónsdóttir, staðgengill borgarstjóra, sagði ekki annað unnt en að afsaka þennan seinagang en hann væri ekki dæmigerður fyrir vinnubrögð í ráðhúsinu.

Klukkan 19.50 flutti Halldór Ásgrímsson stefnuræðu á alþingi og voru umræður um hana fram til klukkan 22.00.

Samfylkingarforystan Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður og Ágúst Ólafur Ágústsson varaformaður slógu bæði sama tón, að hér væru stjórnarhættir þannig að síst væri til fyrirmyndar. Einkennileg voru því lokaorð Ingibjargar Sólrúnar, eftir að hún hafði fundið ríkisstjórninni allt til foráttu, sagði hún: „Ríkisstjórnin á næsta leik.“ Er unnt að skilja þetta á annan veg en þann, að Samfylkingin sé að skjóta sér undan frumkvæði? Hvers vegna á ríkisstjórn, sem að mati ræðumanns er óalandi, næsta leik? Til að gera hvað? Halldór Blöndal afgreiddi spillingartalið í Ágústi Ólafi með því að minna á, að hann hefði verið kjörinn varaformaður með 900 atkvæðum á 500 manna fundi.

Athyglisvert var, að hvorki Ingibjörg Sólrún né Ágúst Ólafur héldu á loft kröfunni um að þingnefnd rannsakaði aðdraganda Baugsmálsins. Sú tillaga Ágústs Ólafs hefur greinilega ekki hlotið stuðning í þingfokki Samfylkingarinnar.