Laugardagur, 15. 10. 05.
Sat landsfundinn í dag, þegar rætt var um tillögur að áyktunum um hin ýmsu efni. Raunar hófst fundurinn í Laugardalshöll klukkan rúmlega 13.00 á því, að Davíð Oddsson minntist Más Jóhannssonar, sem hafði unnið í skrifstofu flokksins með öllum formönnum hans nema Jóni Þorlákssyni og lést í gær 85 ára að aldri. Vottuðu fundarmenn Má virðingu sína með því að rísa úr sætum.
Geir. H. Haarde flutti framboðsræðu til formanns að lokinni minningarstundinni um Má og klukkan 15.00 fluttu þau Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir mennatmálaráðherra framboðsræður til varaformanns. Þess á milli og fram eftir degi kynntu talsmenn málefnanefnda niðurstöður sínar og gengið var til atkvæða um tillögur og breytingatillögur.
Á heimleið leit ég inn í kosningaskrifstofu Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, en hann bauð landsfundarfulltrúum til fagnaðar.