Laugardagur, 01. 10. 05.
Alþingi var sett í dag. Við þingmenn Sjálfstæðisflokksins komum saman á fundi klukkan 12. 30 og ræddum sameiginleg mál en rétt fyrir klukkan 13. 30 gengu þingmenn til kirkju ásamt forsetahjónunum, biskupi og séra Valgeiri Ástráðssyni, sem predikaði.
Ólafur Ragnar Grímsson flutti ræðu um við setningu þingsins og vék meðal annars að fjölmiðlum á þennan veg: „Nú ræður fjölbreytileikinn fréttum dagsins, margar stöðvar keppa um hylli fólksins og flokkarnir eiga ekki lengur á vísan að róa í fjölmiðlunum. Lýðræðið er í vaxandi mæli vettvangur fólks með ólíka reynslu, mismunandi upplýsingar, fréttir sem berast úr mörgum áttum. Enginn miðill nær lengur til allra.“
Við veltum því fyrir okkur nokkrir þingmenn eftir ræðuna, hvort síðasta setning hinna tilvitnuðu orða væri svar Ólafs Ragnars til þeirra mörgu, sem nú hafa snúist á sveif með okkur, sem teljum nauðsynlegt að setja lög um samþjöppun eignarhalds á fjölmiðum, þegar allt að 80% fjölmiðlunar í landinu er á einni hendi, og Baugsmiðlunum er beitt á einstakan hátt eins og nýleg dæmi sanna. Ef enginn einn miðill nær lengur til allra, er best að eignast alla miðlana, kynni einhver auðmaður að hafa sagt.
Ólafur Ragnar vék einnig að okkur þingmönnum, sem notum netið og sagði: „Er tölvan kannski orðin þingmönnum öflugra áhrifatæki en ræðustóllinn hér í salnum? Þarf hinn kjörni fulltrúi ekki lengur á þingfundi að halda til að koma viðhorfum sínum til kjósendanna? Getur rödd eins þingmanns sem berst eftir netslóðum orðið áhrifaríkari en ályktanir þingflokkanna?“
Svar mitt við þessum spurningum er einfaldlega nei og byggi ég það á tæplega 11 ára reynslu af því að halda úti vefsíðu. Netið eða skrif á það koma að sjálfsögðu aldrei í stað þess að flytja mál í þingsalnum eða standa að afgreiðslu mála í þingflokki. Miklu meiri spurning er, hvernig netið nýtist til að mæla afstöðu almennings til einstakra mála og hvort það kemur í stað hefðbundinna aðferða til að kynnast viðhorfi almennings, til dæmis með þjóðaratkvæðagreiðslu, og ryðji þess vegna úr vegi gamalli arfleifð í því efni, en stundum má rekja hana allt aftur til einveldistímans á 19. öld, án þess að hún sé talin þróast í takt við þingræðisregluna.